Um daginn var ég að spjalla um borgina Lyon og þá rifjaðist upp fyrir mér að á meðan ég dvaldi þar, fyrir nokkrum árum, hefði ég skrifað eitthvað á þessa bloggsíðu. Hún var alveg horfin úr huga mér, ég mundi ekki einu sinni slóðina. Bloggið tókst mér samt að finna og setja inn eina mynd úr göngu minni til Hafnarfjarðar.
Á meðan ég eldaði hafragrautinn fyrir stundu, og hlustaði á viðtal Sigurlaugar Margrétar við Hönnu Birnu, hugsaði ég með mér að nú væri einmitt rétti tíminn til að byrja aftur að skrifa blogg; nýtt ár, ný áform og breytingar í vændum. Mér fannst Hanna Birna segja margt skemmtilegt og áhugavert. Það kom mér alls ekkert á óvart, við unnum einu sinni saman í Kaupfélagi Hafnfirðinga, mér fannst Hanna Birna skemmtileg þá og yfirleitt er fólk sem er skemmtilegt fimmtán ára líka skemmtilegt þegar það er komið á sextugsaldur. En varðandi mínar breytingarnar þá eru þær töluverðar. Á eftir fer ég og geng frá á skrifborðinu mínu og tæmi skúffurnar því ég ætla að taka mér árs leyfi frá því að deila skrifstofu með bestu skrifstofufélögum í víðri veröld. Ég ætla að umturna lífi mínu dálítið. Núna ætla ég ekki að skrifa í hverju sú umturnun felst, það verður að fá að koma í ljós með hægðinni, á tímum drepsóttar er varhugavert að vera stórorð um eigin fyrirætlanir.
Þau undur og stórmerki gerðust í nótt að ég svaf eðlilegum svefni í um átta klukkustundir, vaknaði bara einu sinni til að athuga hvort ég væri nokkuð dauð og hvað klukkan væri. Slíkt gerist afar sjaldan, ég velti því fyrir mér hvort lestur nokkurra blaðsíðna úr bókinni Við sólarlag eftir Guðbjörgu á Broddanesi fyrir svefninn hafi haft þessi góðu áhrif. Ég mun lesa annan kafla í kvöld, þetta stefnir í tilraun.Verkefni dagsins í dag er óvenjulegt, það er í sex liðum á minnislistanum, hefst innan stundar með þýðingu á sendibréfi og lýkur í kvöld með hópverkefni sem gæti dregist fram undir miðnætti.
Ég lýk þessu með skipun konunnar sem stjórnar morgunleikfiminni á Rás 1. Rétt í þessu sagði hún: Berum höfuðið hátt!
Kommentarer
Skicka en kommentar