![]() |
Húsið hans Jespers í Florida. Það var auglýst til sölu á 10,7 milljónir dollara |
En aftur að Janne, sem vitnar í nágranna sinn sem sagði að það væri gott að það væri loksins búið að troða upp í kjaftinn á Trump, en Janne er ekki alveg viss um að það hafi verið rétt þó að hann sé á því að það sé hægt að misnota tjáningarfrelsið. Hann veltir því fyrir sér hvort það sé jafnvel verra fyrir lýðræðið að Twitter hafi lokað á karlinn. Janne segist hafa verið í vandræðum með að svara þegar sonur hans á fyrsta ári í menntaskóla hafi spurt hvort Trump væri snargalinn. Það voru 74 milljónir Bandaríkjamanna sem kusu hann, kaus þetta fólk allt galinn mann? Janne segist hafa svarað að ef svo sé, þá sé heimurinn galinn.
Janne Josefsson heimsótti golfleikarann Jesper Parnevik í Flórída árið 2015. Jesper sagði honum að hann hefði spilað golf við Trump og gaf í skyn að honum væri ekki vel við hann. Á þessum tíma var Trump nýbúinn að lýsa því yfir að ekki ætti að hleypa fleiri múslimum inn í Bandaríkin, þeim væri ekki treystandi. Janne spurði golfleikarann hvort Trump væri, með þessari yfirlýsingu, ekki örugglega búinn að skjóta sig í fótinn og gæti aldrei orðið kandídat repúblikana til forseta. Svar Jespers var eitthvað á þessa leið: „Ég get sagt þér það að margt fólk er af ýmsum ástæðum „fed up“
við stjórmálamenn og fjölmiðla. Margir stjórnmálamenn nota alltaf „réttu orðin“
þegar kveikt er á myndavélunum, oft demókratar eins og Hillary Clinton, og fjölmiðlar gleypa það gagnrýnislaust. Trump er ný tegund af stjórnmálamanni sem segir nákvæmlega það sem hann hugsar. Hann er ekki hræsnari.“ Jesper Parnevik spáði því að Donald Trump gæti orðið frambjóðendaefni og í kjölfarið forseti Bandaríkjanna. Janne Josefsson segist hafa maldað í móinn, hann bara tryði því ekki. Í lok kosningadags fór Janne snemma að sofa, eins og ég, sannfærður um að Hillary Clinton yrði orðin forseti þegar hann vaknaði. Við vitum öll hvernig það fór, þegar hann fór á fætur var kistulagningarstemning í kosningasjónvarpinu sem enn var í gangi.
Janne Josefsson segir að sænskir fjölmiðlamenn hafi ekki unnið vinnuna sína nógu vel í aðdraganda kosninganna. Þeir hafi ekki getað útskýrt hvers vegna margir voru svona óánægðir í Bandaríkjunum þegar Trump náði kjöri, fjölmiðlamenn hafi ekki verið sendir á staðinn til að tala við fólk með opnum huga fyrr en löngu eftir kosningar. Janne heldur að einhverjir vitleysingar (þetta er mitt orð) geti alveg náð kjöri í Svíþjóð vegna þess að stjórnmálamenn standi ekki við kosningaloforðin sín um réttlátt og öruggt samfélag. Svo víkur hann að því að sænski forsætisráðherrann, Stefan Löfven, hafi farið út í búð að kaupa jólagjöf handa konunni sinni þegar hann hefði átt að vera heima hjá sér og panta hana af netinu. Og þó að Janne nefni það ekki þá var ígildi okkar Víðis í Svíþjóð staðinn að því að vera að dingla sér á Tene um daginn og svo kom í ljós að hann er búinn að margpendla til Kanaríeyja á meðan covid-19 geysar og ráðamenn segja fólki að vera heima hjá sér ef það mögulega getur. Það eru gjár á milli valdafólks og almennings um allan heim. Íslenskum ráðherra fannst allt í lagi að troðast grímulaus í húsi á Skólavörðuholtinu á Þorláksmessu og aðrir ráðherrar vörðu hann. Mér finnst slík hegðun auðvitað ekki réttlæta að fólk kjósi fávita á borð við Trump, en mér finnst samt skiljanlegt að venjulegt fólk treysti ekki ríkjandi stjórnmálaöflum. Eftir að ég las fyrrnefnda grein varð ég stressuð yfir því hvað kemur upp úr íslenskum kjörkössum í komandi kosningum. Ég gat ekki sofnað aftur í morgun og er þess vegna mjög syfjuð núna um miðjan dag.
Kommentarer
Skicka en kommentar