Fortsätt till huvudinnehåll

Skólabörn

Sænska ríkistjórnin vill banna kynjaskipta bekki. Málið hefur verið rætt mikið undanfarið eftir að kom í ljós að einhverjir múslimskir einkaskólar hafa stelpur og stráka aðskilin í leikfimi og reyndar kom í ljós fyrir skömmu að á einum stað fá stelpur og strákar ekki að nota sömu dyr á skólarútum. Ríkisstjórnarfólk sem vill banna aðskilnaðinn, meðal annarra menntamálaráðherrann, segir alla skóla í Svíþjóð eiga að vinna markvisst að jafnrétti og að það verði ekki gert með aðskilnaði kynjanna. Núna er leyft í Svíþjóð að skilja kynin að í einstaka fögum en ekki er vitað hversu algengt það er.

Ég hef aldrei skilið hvað mörgum á Íslandi finnst sjálfsagt að skilja kynin að í skólabekkjum. Og hvar lenda þau sem upplifa sig ekki endilega sem strák eða stelpu? Gegn kynjaaðskilnaði skólabarna börðust margar kvenréttindakonur á sínum tíma víða um heim. Um daginn las ég um finnska uppeldisfrömuðinn og femínistann Lucinu Hagman sem fæddist 1853 og dó um miðja síðustu öld. Hún barðist ötullega fyrir því að stelpur og strákar yrðu menntuð í sömu stofnunum og stofnaði árið 1890 skóla fyrir bæði kynin sem hún stýrði í 45 ár. Lucina Hagman samdi bók um reynslu sína af því að ala kynin upp saman í hóp. Og að sjálfsögðu mætti hún andspyrnu og steinar voru lagðir hennar götu í Finnlandi. Nú þykir auðvitað margt sem hún hélt fram alveg sjálfsagt mál.

Lucina Hagman

Kommentarer