Fortsätt till huvudinnehåll

Moby Dick og flísarnar á gólfinu

Um daginn þóknaðist Nóbelsverðlaunahafanum Bob Dylan loks að senda frá sér ræðuna sem hann þurfti að halda til að fá milljónirnar. Ég hef ekki lesið þá ræðu eða heyrt, ég er ekki svo spennt, en hins vegar hef ég rekist á umfjöllun um hana og sýnist sitt hverjum, svona eins og búast má við. Ein þeirra sem skrifaði er Erika Hallhagen, blaðakona Svenska Dagbladet, greinin hennar hefur yfirskriftina; Ertu að grínast, Bob Dylan? Þar segir hún að ekki einu sinni meðvirkasta fólk geti varið þennan hálftímalanga samsetning sem hljómar eins og nemandi í elstu bekkjum grunnskólans hafi samið hann og svo finnst henni lítið til þess koma að Dylan vitni í Moby Dick, Ódysseifskviðu og Tíðindalaust á Vesturvígstöðvunum. Blaðakonunni Eriku finnst ræðan auk þess leiðinleg og tíðindalaus, þó að hún segist hafa getað flissað að einhverju. Hún segist hafa reynt að finna einhverja ljósa punkta í þessu hjá Dylan en að það hafi ekki tekist frekar en þegar söngvaskáldið lék í kvennærfataauglýsingu um árið. Ég hef ekki lagt mig fram um að fylgjast sérstaklega vel með bókmenntanóbelsumræðunni (viðurkenni samt fúslega að ég hefði látið einhvern annan en Bob Dylan fá bókmenntaverðlaunin) en það sem rak mig til að renna yfir fyrrnefnda grein sænsku blaðakonunnar var samantekt á viðbrögðum við greininni frá ýmsum karlmönnum, svokölluðum virkum í athugasemdum, sem mér var vísað á. Þar er Erika Hallhagen til dæmis kölluð karlahatari sem horfir á allt út um píkuna á sér, heimskingi sem skrifar um hluti sem hún skilur ekki, að hún sé sjálf með þroska á við grunnskólanema, að hún hafi ekki lesið Moby Dick og hinar bækurnar og sé því ómarktæk, að hún sé sjúk af exibisjónisma og svona er hægt að halda lengi áfram. Þessi samantekt kommenta við grein sænsku blaðakonunnar minnti mig á umræður þeirra sem standa þéttast með íslensku skáldi sem hefur kallað orðræðu kvenna stelpupussulæti. Þeir sem verja hann sem ákafast heyrast mér oft á þeirri skoðun að þau sem skilja ekki snilldina og djúpan skilning skáldsins á þjóðfélaginu eigi bara að halda sér saman því umrætt fólk sé eintómir vitleysingar.

Um daginn var komið að máli við mig og ég var beðin að semja texta við jólalag. Mér finnst það frekar skemmtilegt. Útrunnar piparkökur úr Ikea og kaffibolli verða að skapa réttu stemninguna í verkefnið. Pabbi vitleysingsins sem Hugh Grant lék í About a Boy gerði syni sínum kleyft að sleppa allri launavinnu út af  jólalagi, kannski verður þessi texti uppspretta peninga fyrir syni mína, annar þeirra á reyndar afmæli í dag. Ég bind samt engar vonir við að ég hafi fundið tekjulind, enda er einhver annar löngu búinn að semja lagið sem textinn á að vera við.

Ég ætlaði að fúga svefnherbergisgólfið í kjallaranum fyrir helgi en annir við ritstörf, át og drykkju, sólböð og garðyrkju, en þó aðallega leti, komu í veg fyrir að af því yrði. Í gærkvöldi dreif ég loks í þessu og gólfið er tilbúið. Það á bara eftir að strjúka yfir það nokkrum sinnum með svampi og blautri moppu.

Nýfúgað kjallaragólf

Kommentarer

  1. Lekkert kjallaragólf. Á að flytja inn au pair eða leigja ferðamönnum?

    SvaraRadera
    Svar
    1. Takk og hvorugt. Þetta er svokallað gestaherbergi.

      Radera

Skicka en kommentar

Populära inlägg i den här bloggen

Ævintýrasirkusinn

Auðvitað er ég blinduð af eigin fordómum. Á meðan ég gekk um Åmål síðdegis í dag, eftir langan vinnudag við skrifborðið, hugsaði ég með mér að hér í þessum rólega bæ gerist örugglega aldrei nein ævintýri. Mér fannst þessi staður hljóta að vera merktur einhverjum ægilega tragískum hversdagsleika. En það var auðvitað eins og við manninn mælt; ég gekk inn í bók eftir Enid Blyton. Þegar ég kom rétt út fyrir miðbæinn, niður að vatninu, kom í ljós að Cirkus Brazil Jack er mættur í þorpið. Bæjarbúar þustu að og biðröð hafði myndast við miðasöluvagninn. Auðvitað gat forvitna konan ekki stillt sig um að læðast um svæðið og smella af nokkrum myndum. Ég batt að sjálfsögðu vonir við að sjá skeggjuðu konuna, fíl sem gengur á tveimur fótum, apa sem skilur mannamál og léttfulla spákonu með stóra eyrnalokka, skuplu og kristalskúlu, en þau voru örugglega öll inni í vögnunum að leggja sig. Sömuleiðis konan sem getur brotið sig saman og troðið sér ofan í skókassa og síamstvíburarnir. Hins vegar sá ég þr…

Næstsíðasti dagurinn í Åmål

Líður að lokum dvalarinnar í menningarhúsinu bænum við Vänern. Búið að panta lestarferð suður á bóginn á fimmtudag og ég verð á Íslandi í næstu viku. Þar bíða beð sem þarf að róta í og safnhaugur sem þarf að snúa á hvolf. Veðrið hefur verið frekar ömurlegt allan mánuðinn hér í Svíþjóð; kalt, rigning, haglél, slydda og rok. Ekki hefur strandlíf og drykkja á sólpöllum tafið mig frá vinnu, enda hefur mér orðið mikið úr verki, ég hef bæði lesið og skrifað og líka andað djúpt og hugsað.

Erla er ekki neitt sérlega iðin við bloggið, en ég bind vonir við að senn skrifi hún eitthvað. Ef þið vitið um íslensk blogg sem ég ætti að lesa þá má láta mig vita.

Nokkur önnur blogg  sem ég les:
Ráðlagður jazzkammtur
Kaktusinn
Bragi Ólafsson
Fjallabaksleiðin