Fortsätt till huvudinnehåll

Endurtekið efni

Í morgun settist ég niður til að skrifa grein um rithöfund. Höfundurinn hefur skrifað fjórar skáldsögur og sex leikrit, fengið hátt í þrjátíu verðlaun og verið þýddur á tugi tungumála. Ég er búin að kynna mér verk þessa höfundar, hef tekið viðtöl við hann, lesið bækurnar, séð bíómynd sem gerð var eftir einni þeirra, tvö leikrit og þýtt bók eftir manninn svo ég þekki hann ágætlega. Auðvitað gúgglaði ég samt nafnið hans og skoðaði þó nokkrar greinar á tveimur tungumálum þar sem fjallað er um höfundinn og verkin. Það sem mér finnst áhugavert er að ég var meira og minna alltaf að lesa það sama í þessum greinum. Það er augljóst að blaðamenn og greinahöfundar lesa það sem þeir finna á netinu og hlera það sem fram fer í umræðunni og að það er einhver bolti þarna úti sem rúllar áfram; þykir einn merkasti höfundur sinnar kynslóðar ... Auðvitað er þetta ekki óeðlilegt og svo eru alveg til undantekningar, fræðigreinar og BA-ritgerðir eða álíka sem segja mögulega eitthvað annað, en þetta er samt áberandi. Það eina sem mér fannst smávegis öðruvísi var bloggsíða leshrings þar sem fólk tjáði sig hressilega um nýjustu bókina.

Þetta minnti mig á það sem margir segja aftur og aftur um Yrsu Sigurðardóttur þegar minnst er á hana; hún skrifar bækurnar sínar í excel. Mig grunar að Yrsa hafi einhvern tíma sagst nota forritið excel við skrif sín og að fólki hafi þótt þetta sæta svo miklum tíðindum, til góðs eða ills, og að nú geti enginn gleymt þessu. Yrsa sér kannski eftir að hafa sagt þetta, ég held að það sé að mörgu leyti slæmt þegar lesendur spóla sig fasta í svona upplýsingum. Hvað er eiginlega svona merkilegt við að setja söguþráð bókar upp í excel? Finnist fólki það þénugt forrit er það örugglega ágætt til að raða upp atburðum í bók. Svona eins og að sumir skrifa á gula miða og líma þá í röð upp á vegginn fyrir ofan skrifborðið sitt. Og fyrst minnst er á excel þá skil ég eiginlega ekki líkinguna þegar sagt er um fólk, með neikvæðum formerkjum, að það sé einhvers konar excel-hausar. Excel er í mínum huga bara tæki sem er nothæft til ákveðinna hluta, ég nota það mjög lítið en reyndar sendi ég excel-skjal frá mér í morgun vegna þess að það virkar ágætlega ef maður er að eiga örlítið flókin samskipti við netbanka. Já og nú er best að nefna, svona ef einhver ætlar að skrifa eitthvað um mín verk og gúgglar þessa síðu í fyllingu tímans; ég skrifa ekki bækur í excel og nota reyndar forritið word ekki heldur. Þá er því að minnsta kosti komið að.

Í gær var 19. júní og því var fagnað að íslenskar konur, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt fyrir 102 árum. Því var líka fagnað að stóra og góða húsið sem ég vinn í, Kvennaheimilið Hallveigarstaðir, er 50 ára. Nú horfi ég til skiptis á tölvuna og út um rennblauta rúðu á þessu magnaða húsi með kynjagleraugun á nefinu. Það er engin ástæða til að taka þau niður og það væri í raun fásinna. Því miður er langt í land í að jafnrétti verði náð og menn vinna stöðugt gegn því að kynin fái að sitja við sama borð. Sumir markvisst og með einbeittan brotavilja, aðrir fullir af sjálfhverfu og kynblindu.


Útsýni frá kvennaheimili

Kommentarer

Populära inlägg i den här bloggen

Ljótar ljósmyndir

Í krummaskuðinu Krummaborg er gamalt leikhús sem á sér langa sögu. Það stendur við götu sem heitir Horní og er um 200 metra frá aðaltorginu þar sem ég er stödd núna. Í leikhúsinu er kaffihús/bar, eina slíka lókalið ég hef komið inn á í Tékklandi þar sem ekki má reykja. Anddyri leikhússins minnir mig pínulítið á gamla Nýja bíó eða jafnvel Hafnarfjarðarbíó (sem var eitt fallegasta bíó Íslands - en auðvitað var það eyðilagt), það er einhver svoleiðis stemning þarna. Kaffihúsið á neðstu hæð er skemmtilega gamaldags og ekkert of fínt, mismunandi ljósakrónur og lampar og þjónustustúlkan var hressileg. Mér leið samt dálítið eins og á kaffistofu sagnfræðinga við Háskóla Íslands þarna inni í gærkvöldi. Á svæðinu voru nefnilega tólf karlar og ein kona (ég). Já og skömmu síðar bættist þrettándi karlinn í hópinn.

Kannski hanga tékkneskar konur lítið á kaffihúsum og börum en þegar ég fór á klósettið datt mér í hug önnur skýring á fjarveru þeirra. Í anddyri leikhússins er nefnilega hörmulega ósmek…