Fortsätt till huvudinnehåll

Föstudagur

Sumt fólk er alltaf að gefa eitthvað í skyn. Það segist gjarna hafa fengið símtal eða áhugaverðan tölvupóst, að ónefndur hafi komið að máli við sig, dæsir yfir að það sé með svo marga bolta á lofti, mörg járn í eldinum eða eitthvað í þá áttina en segir svo ekki nánar hvaða bolta og hvaða járn og skilur fólk í kringum sig eftir logandi af forvitni. Ég er svo tortryggin að ég held yfirleitt að þetta fólk sé að mikla fyrir sér hlutina eða gera sig merkilegt í augum annarra. Það er jú ákveðinn status að vera upptekin og eftirsótt. Kannski er ég svona skeptísk vegna þess að ég fæ sjaldan símtöl, ónefndir koma afar sjaldan að máli við mig og ég er aldrei með neina sérstaka bolta á lofti. Ég fæ líka sjaldan spennandi tölvupósta. En nú á ég reyndar einn í pósthólfinu með tillögum að myndskreytingum næstu bókar!

Í gær fór ég á sumargleði hljóðbókalesara, það var mjög skemmtileg stund og góðar snittur og vín í boði. Svo fór ég á Hótel Öldu og spjallaði við skemmtilega vinkonu og þýðanda og pólskt starfsfólk á barnum. Þau eru búin að vera hálft ár á Íslandi og ætla að vera hálft ár í viðbót. Ég hvatti þau til að vera lengur, mér finnst líklegt að það taki að minnsta kosti ár að venjast landinu og síðan er gott að vera lengur til að upplifa samfélagið öðruvísi en sem nýkominn gestur. Reyndar sagði ég þetta aðallega af eigingjörnum hvötum, það vantar fleira fólk á Íslandi og um að gera að halda í þau sem vilja koma og bjóða þeim að vera sem lengst. Ríkisstjórn Íslands er ekki sammála mér.

Í gær fann ég moppu á Bergþórugötu, nálægt Snorrabraut. Hún ilmaði af þvottaefni og mig vantaði einmitt moppu svo ég tók hana með mér heim og moppaði gólfið. Ef einhver saknar þessarar moppu (hún er græn úr örtrefjum) þá má sækja hana til mín.

Það er sendiherra á leið í morgunkaffi og þýðingaspjall og ég var að taka brauð úr ofninum.

Kommentarer