Fortsätt till huvudinnehåll

Síðdegi flísaleggjarans

Það er eitthvað mjög áhugavert við að leggja flísar. Púsl með tilgang, verk sem er ekki beinlínis mjög auðvelt, en samt ekkert sérlega flókið og getur gengið býsna hratt. Það getur samt alveg tekið á taugarnar. Nú erum við að leggja lokahönd á flísagólf, annað kvöld mun ég fúga og í lok vikunnar verður glænýtt gólf á einu herbergi í kjallaranum.

Á meðan ég lagði síðustu flísarnar áðan fór ég að hugsa um bók eftir höfund sem ég hef miklar mætur á. Það er maður sem skrifaði texta sem ég sogast oft inn í því hann er svo óskaplega tær og þægilegur, tilgerðarlaus og innihaldsríkur. Bókin sem ég hugsaði um heitir En kakelsättares eftermiddag eða Síðdegi flísalagningamanns og höfundurinn heitir Lars Gustafsson. Hann var meðal annars prófessor í Austin í Texas en  ættaður frá Västerås og gamall skólafélagi P. O. Enqvist. Lars Gustafsson dó fyrir rúmu ári síðan. Bókin um síðdegi flísaleggjarans er stutt (margar bækur LG eru stuttar og þéttar), hún kom út 1991 en ég las hana nokkrum árum síðar. Umrædd bók fjallar um gamlan og hálfsubbulegan flísalagningamann í Uppsölum sem vinnur svart og er samtímis á sjúkrabótum eða einhverjum félagslegum styrk. Hann vill ekki borga skatta og fjármagna velferðarkerfið. Í sögunni er hann að flísaleggja baðherbergi fyrir gamlan kunningja sinn og gott ef hann er ekki soldið fullur við flísalagningarnar. Þessi bók er sennilega allegóría um það hvernig sósíaldemókratíska þjóðfélagið er að hrynja saman. Flísarnar eru illa lagðar og skakkar, eins og þjóðfélagið. Nú langar mig að lesa bókina aftur en miður á ég ekki eintak.

Þegar kjallaragólf er flísalagtKommentarer

Populära inlägg i den här bloggen

Ljótar ljósmyndir

Í krummaskuðinu Krummaborg er gamalt leikhús sem á sér langa sögu. Það stendur við götu sem heitir Horní og er um 200 metra frá aðaltorginu þar sem ég er stödd núna. Í leikhúsinu er kaffihús/bar, eina slíka lókalið ég hef komið inn á í Tékklandi þar sem ekki má reykja. Anddyri leikhússins minnir mig pínulítið á gamla Nýja bíó eða jafnvel Hafnarfjarðarbíó (sem var eitt fallegasta bíó Íslands - en auðvitað var það eyðilagt), það er einhver svoleiðis stemning þarna. Kaffihúsið á neðstu hæð er skemmtilega gamaldags og ekkert of fínt, mismunandi ljósakrónur og lampar og þjónustustúlkan var hressileg. Mér leið samt dálítið eins og á kaffistofu sagnfræðinga við Háskóla Íslands þarna inni í gærkvöldi. Á svæðinu voru nefnilega tólf karlar og ein kona (ég). Já og skömmu síðar bættist þrettándi karlinn í hópinn.

Kannski hanga tékkneskar konur lítið á kaffihúsum og börum en þegar ég fór á klósettið datt mér í hug önnur skýring á fjarveru þeirra. Í anddyri leikhússins er nefnilega hörmulega ósmek…