En sem sagt, Jens Liljestrand áttaði sig snemma á því að hann væri óvinsæll. Fólki fannst hann með óþægilega nærveru, montinn og ókurteis. Hann hélt að þetta væri eitthvað spes og sérstakt í eigin fari, en eftir að hann skrifaði greinarnar tvær þá lét fullt af fólki í sér heyra og lýsti samskonar upplifunum. Svo hafði blaðakona DN líka samband við Jens, hún las greinarnar hans og tók við hann viðtal. Talandi um keðjuverkun og blaðamenn að taka viðtöl við aðra blaðamenn!
Jens segir í viðtalinu að kærustur hans í gegnum tíðina hafi oft skammað hann fyrir að hlæja of hátt að eigin bröndurum, hella of miklu viskíi í eigið glas og vera nískur og að hann hafi verið óvinsælt barn sem var ekki boðið í afmæli. En hann á samt alveg vini núna og sumum finnst hann rosa skemmtilegur, einhverjir kunningjar höfðu samband eftir greinarnar tvær og sögðust alltaf hafa túlkað montið í honum sem íroníu og húmor, en málið er bara að Jens er rígmontinn og alls ekki kaldhæðinn.
Hann hefur verið að reyna að vinna í þessu undanfarið og langar að skilja hvers vegna hann þykir svona óvinsamlegur. Jens segist hafa verið yngstur í fjölskyldunni og þess vegna orðið einskonar gamalt barn, kannski líkur Chandler í Friends (blessuð sé minning hans), það hafi þótt krúttlegt þegar hann var krakki en að vera þannig miðaldra karl þyki bara skrítið og óþolandi. Þess vegna er hann núna, með aðstoð sálfræðings sem hefur skrifað bók um hvað einkennir fólk sem öðrum líkar vel við, að reyna að verða meira likeable, eins og hann orðar það.
Þetta byrjaði með því að fólk kom endurtekið til Jens og sagði að hann hefði verið ömurlega dónalegur, en hann hafði enga hugmynd um það sjálfur. Hann áttaði sig á því að það væri mynstur í þessu, það væri mögulega einhver mister Hyde í persónuleika hans og að hann væri stundum algjört kvikindi án þess að fatta það. Hann hefur alltaf fundið að það er eitthvað undarlegt í hegðun hans, en vandamálið var að hann gerði sér ekki grein fyrir hvað hann væri mikill dóni. Jens skortir þá eiginleika sem gera fólk vinsælt. Í fyrstu áttaði hann sig ekki á að þetta væri vandamál, en smám saman hefur hann komist að því að þetta stendur honum fyrir þrifum. Hann langar nefnilega að vera vingjarnlegur og sýna samlíðan með öðru fólki og tengjast því en það gengur illa. Eitt sem sálfræðingurinn hefur kennt Jens er að kunna að taka á móti hrósi og hrósa fólki fyrir það sem vel er gert. Ekki bara segja takk og fara. Hann þurfi að leggja orku í samskipti, reyna að vera næs við fólk, bæði þau sem hann þekkir og ókunnuga sem hann hefur samskipti við. Þetta hljómar fyrir mér svolítið eins og að samskipti séu gerð að íþrótt, sem er kannski ekkert slæmt. Jens segist ekki hafa mikinn áhuga á öðru fólki og ekki hafa mjög gaman af að hlusta á það, hann vill frekar tala um sjálfan sig og þylja upp eigin skoðanir (þessi einlæga játning mun skapa honum vinsældir, ég segi það og skrifa) en að reyna að verða ný og heillandi týpa með hjálp sálfræðings hljómar svolítið eins og að hann sé á prívat námskeiði fyrir farandsala, verð ég að viðurkenna, enda hefur honum verið bent á að hann sé að temja sér hegðun Mr. Ripleys, sögupersónu Patriciu Highsmith.
Þegar ég var unglingur var í tísku hjá fólkinu í leiklistarskóla Helga Skúla að segja að við værum öll alltaf að leika, sem er víst tilvísun í Shakespeare, og kannski er það bara málið. Ég, verandi gömul kona, tengi þetta samt við nútímann. Einu sinni var í lagi að vera skrítinn, sérvitringar og originalar þóttu oft sniðugir, en nú á dögum er fólk bara dónalegt ef það er ótaktískt og klípandi karlar þykja, sem betur fer, ekki skemmtilega kvensamir lengur. Ég veit samt ekki hvort námskeið í að hrósa og horfa í augun á fólki eru lausnin. Alvöru samlíðan hlýtur að skipta mestu máli og hana þarf að rækta með fólki strax frá bernsku. Nú um stundir efast ég um hvernig samúð og samlíðan sé háttað meðal margra Svía, þau dagblöð sem ég les á sænsku fjalla æpandi lítið um ástandið á Gaza og fjöldamorð á saklausu fólki. Slík umræða þar í landi viðist oft samstundis túlkuð sem gyðingaandúð. Og kannski eru hlýjar tilfinningar og samlíðan og skilningur á hlutskipti annarra bara endanlega orðin viðurkennd söluvara í markaðsvæddri tilveru.
![]() |
Þessi mynd er bara hér til gamans |
Kommentarer
Skicka en kommentar