Um daginn þóknaðist Nóbelsverðlaunahafanum Bob Dylan loks að senda frá sér ræðuna sem hann þurfti að halda til að fá milljónirnar. Ég hef ekki lesið þá ræðu eða heyrt, ég er ekki svo spennt, en hins vegar hef ég rekist á umfjöllun um hana og sýnist sitt hverjum, svona eins og búast má við. Ein þeirra sem skrifaði er Erika Hallhagen, blaðakona Svenska Dagbladet, greinin hennar hefur yfirskriftina; Ertu að grínast, Bob Dylan? Þar segir hún að ekki einu sinni meðvirkasta fólk geti varið þennan hálftímalanga samsetning sem hljómar eins og nemandi í elstu bekkjum grunnskólans hafi samið hann og svo finnst henni lítið til þess koma að Dylan vitni í Moby Dick , Ódysseifskviðu og Tíðindalaust á Vesturvígstöðvunum . Blaðakonunni Eriku finnst ræðan auk þess leiðinleg og tíðindalaus, þó að hún segist hafa getað flissað að einhverju. Hún segist hafa reynt að finna einhverja ljósa punkta í þessu hjá Dylan en að það hafi ekki tekist frekar en þegar söngvaskáldið lék í kvennærfataauglýsingu um árið