
Í gærkvöldi horfði ég á heimildarmynd á Netflix um Joan Didion. Myndin er alveg ágæt, kannski dálítið yfirborðsleg, en mér finnst samt heimildarmyndir um áhugavert fólk alltaf forvitnilegar. Í myndinni kom fram að Joan drakk (eða drekkur) kók og borðaði hnetur í morgunmat, það finnst mér svalt. Í kjölfarið rifjaði ég upp blogg sem ég skrifaði einu sinni um bók eftir hana og svo datt mér í hug að bæta líf mitt og lestur með því að fara aftur að skrifa bókablogg. Ég er nefnilega aðeins byrjuð á jólabókaflóðinu og finnst bókablogg ágætt tæki til að velta bókum fyrir mér. Ég les (stundum of) hratt og það hjálpar mér við að átta mig betur á bókum að skrifa um þær eftir lesturinn. Í síðustu viku var ég í París og las Sögu Ástu eftir Jón Kalman. Ég held að hún sé besta bókin hans. Ég er búin með nokkrar aðrar nýjar bækur; í fyrrakvöld las ég nýja bók eftir Mikael Torfason, um daginn las ég bestu ljóðabók sem ég hef lengi lesið, bókin heitir Flórída og er eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur, og í gær las ég fimm síður í nýrri glæpasögu sem ég hlakka til að klára. Hér á borðinu hjá mér eru svo tvær óopnaðar nýjar íslenskar bækur í viðbót!
Kommentarer
Skicka en kommentar