Fortsätt till huvudinnehåll

Bækur

Ég hef ekki opnað þetta blogg síðan ég var á Sikiley fyrir tæpum tveimur mánuðum, en ákvað rétt í þessu að ég hefði tíma og væri í stuði til að skrifa smávegis. Það er dálítið mikið að gera, ég þeysist um landið ásamt Atla/Kött Grá Pje því við erum skáld í skólum þessa dagana. Í vikunni höfum við verið í skólum í Reykjavík, á Flúðum og í Grindavík að hitta skemmtilega unglinga en í dag er frí frá því verkefni. Í dag þarf ég hins vegar að flengjast upp á Funahöfða og lesa úr nýrri bók sem við Hildur skrifuðum saman, það er framhald af bókinni um Dodda sem kom út fyrir nákvæmlega ári, ég mæli með henni! Nú og svo er ég byrjuð að þýða nýja (en samt gamla) bók.

Í gærkvöldi horfði ég á heimildarmynd á Netflix um Joan Didion. Myndin er alveg ágæt, kannski dálítið yfirborðsleg, en mér finnst samt heimildarmyndir um áhugavert fólk alltaf forvitnilegar. Í myndinni kom fram að Joan drakk (eða drekkur) kók og borðaði hnetur í morgunmat, það finnst mér svalt. Í kjölfarið rifjaði ég upp blogg sem ég skrifaði einu sinni um bók eftir hana og svo datt mér í hug að bæta líf mitt og lestur með því að fara aftur að skrifa bókablogg. Ég er nefnilega aðeins byrjuð á jólabókaflóðinu og finnst bókablogg ágætt tæki til að velta bókum fyrir mér. Ég les (stundum of) hratt og það hjálpar mér við að átta mig betur á bókum að skrifa um þær eftir lesturinn. Í síðustu viku var ég í París og las Sögu Ástu eftir Jón Kalman. Ég held að hún sé besta bókin hans. Ég er búin með nokkrar aðrar nýjar bækur; í fyrrakvöld las ég nýja bók eftir Mikael Torfason, um daginn las ég bestu ljóðabók sem ég hef lengi lesið, bókin heitir Flórída og er eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur, og í gær las ég fimm síður í nýrri glæpasögu sem ég hlakka til að klára. Hér á borðinu hjá mér eru svo tvær óopnaðar nýjar íslenskar bækur í viðbót!

Kommentarer