Fortsätt till huvudinnehåll

Í Bæheimi

Horft yfir borgina fyrsta daginn
Þórunn Hrefna biður mig að skrifa eitthvað um svaðilfarir mínar í Tékkó. Það er auðvitað gleðilegt að fólk vilji heyra af mögulegum svaðilförum mínum og ég er reyndar búin að vera í heila viku hér í Český Krumlov í Tékklandi án þess að skrifa neitt  á þessa bloggsíðu sem ég ákvað eiginlega að ætti að vera upphafið að nýju bloggi, og það ekki síst ferðabloggi. Tími til kominn skulum við segja.

Hins vegar var alltaf ætlunin að vinna hér í þessum mannfáa miðaldabæ og það hef ég svo sannarlega gert undanfarna viku. Ég hef þýtt margar síður og lesið heilar þrjár bækur. En ég hef líka borðað mikið af ódýrum og góðum mat og drukkið vín frá Moravíu og tékkneskan bjór.



Ferðin hingað hófst eins og ferðir frá Reykjavík gera oftar en ekki. Mæting fyrir allar aldir í Keflavík, sextug húsmóðir frá Hvolsvelli á næsta borði að drekka Breezer og fá sér samloku og síðan fer maður auðvitað út í vél. Nú skal það upplýst að þó að ég sé afar svöl í aðra röndina þá er ég óttalegur nevrótíker á köflum, ekki síst þegar vítisvélar háloftanna eru annars vegar. Og ekki batnar það þegar vélin snýr við úti á brautarenda og er ekið aftur upp að flugstöðvarbyggingu þar sem flugstjórinn segir í hátalarakerfið að eldsneytisdæla sé biluð og að flugvirkjar ætli að redda því. Jú, jú, völundar flugvélanna redduðu málunum auðvitað og í loftið komumst við skömmu síðar og lentum mjúklega í München um hádegið þó að svala taugahrúgan óttaðist bensínstíflu með tilheyrandi nauðlendingu í Atlantshafinu. Á flugvellinum tók á móti okkur geðþekkur, úlpuklæddur maður, á að giska tvítugur, með hipsteragleraugu, gulbrúna húð og dökkt hár, veifandi spjaldi. Við vorum búin að panta skutlu í gegnum netsíðu. Skutlan var ómerktur volkswagen, ekinn hátt í fjögur hundruð þúsund kílómetra og þegar komið var út á hraðbrautirnar var bensínið stigið í botn, við erum að tala um svona 140 kílómetra hraða. Þá þurfti svali nevrótíkerinn að bíta á jaxlinn, ekki síst í upphafi ferðar þegar bílstjórinn fór hvað eftir annað á facebook meðan á akstri stóð, á milli þess sem hann spjallaði í símann. Á vegunum var snjór á köflum en samt þutu Audi-bílar og BMW fram úr okkur eins og vindstrengir, það sem þetta fólk getur brunað! Þegar af hraðbrautunum kom var ekið um sveitavegi meðfram landamærum Austurríkis og eftir hátt í 400 kílómetra, sem tók þó ekkert gríðarlegan tíma að aka, stöðvaði bíllinn fyrir utan hótel Zlatý Andel, Gyllta engilinn, við aðaltorgið í Krumluborg þar sem Hitler hélt ræðu árið 1938 þegar Þjóðverjar hertóku Súdetahéruðin. Reikningurinn hljóðaði upp á rúmar 20 þúsund krónur, mér er sem ég sæi það duga fyrir ferð í leigubíl frá Reykjavík til Akureyrar! Já eða reikningur? það var enginn reikningur í boði, ég lái sígaununum það ekki að nenna ekki að standa í svoleiðis nokkru. Og talandi um sígauna þá er ég einmitt búin að lesa eina bók um þá hérna í Český Krumlov, ég tók með mér viðeigandi lesefni til hjarta Evrópu, það er auðvitað hluti af almennilegu ferðaplani að lesa. Reyndar er ég með "sígaunadellu" og þetta er líklega fjórða bókin um sígauna sem ég les, þá síðustu las ég fyrir skömmu og svo á ég eina heima sem ég á eftir að lesa. Þegar ég kom hingað og fór að lesa mér betur til þá kom í ljós að þessi bær er töluverður sígaunabær, þeir reka líka lítinn bar/veitingahús hér í næstu götu, sem er mjög vinsæll, og auðvitað erum við búin að fara þangað og fá okkur gúllas og tilheyrandi hjá glæsilegum og þjónustuliprum sígaunabaróni og eigum örugglega eftir að fara aftur.


Hótel Gyllti engillinn er ljómandi fínn dvalarstaður. Við fengum herbergi með gullbaðkari, plastparketi, antíkhúgögnum og sjö metra lofthæð, öskubakkar á fæti eru í skotum, ágætiskaffihús á neðstu hæð sem fyllist af öldruðum Þjóðverjum um miðjan morgun, staðsetningin er stórkostleg og hér er gott að vera. Maturinn á fjölmörgum veitingahúsum bæjarins er líka ágætur, allt frá gnocchi með súrkáli og reyktu kjöti til pítsa af ýmsum gerðum. Hér er ekki einn einasti alþjóðlegur keðjustaður, ekkert Burger King, ekkert Starbucks eða þvíumlíkt og það er auðvitað algjörlega stórkostlegt að enn séu til heilir bæir sem eru lausir undan þeirri krumlu kapítalistaalþjóðavæðingarinnar. Veðrið hefur verið býsna kalt hér þessa viku, en ekkert sem maður klæðir ekki af sér með föðurlandi og dúnúlpu.

Á dagskrá er að skrifa meira bráðlega en þangað til af því verður eru hér nokkrar misvelteknar símamyndir.

Útsýnið út um herbergisgluggann

Bókabúð í næstu götu

Namestí Svorností, aðaltorgið í Ceský Krumlov. Myndin er tekin út um glugga morgunverðarsalarins þar sem alltaf  er kalt freyðivín í boði með beikoninu, pylsunum, eggjunum og bakkelsinu. Þar sem bílarnir þrír standa (þarna er nú lögreglustöð bæjarins) stóð Hitler þegar hann þrumaði yfir lýðnum á sínum tíma.
Ekki spara menn ólífurnar á pítsurnar



Miðaldakjallarar og katakombur eru undir öllum húsum



Í þessu húsi eru vinnusamir líffræðingar á námskeiði

Þarna geng ég daglega

Hótel Gyllti engillinn, konur á leið heim úr kirkju spjalla á torginu

Dæmigert stræti, búðin hægra megin er næsta matvörubúð við hótelið

Moldá

Veitingahús góða dátans Svejk

Hádegisverður á Svejk-barnum. Andapaté með sultu, súrdeigsbrauð og ýmislegt fleira
Cesky Krumlov árið 1989


Kommentarer

  1. Takk fyrir þetta fyndna og skemmtilega blogg! Myndirnar eru dásemd.
    Hafðu það nú gott það sem eftir er dvalar.

    kk
    ÞH

    SvaraRadera
  2. Já þetta var sko skemmtilegt að lesa! Skil þig svo vel hvað varðar flughræðsluna og bílstjórann í facebook og síma. Njóttu verunnar áfram!

    Bestu fáanlegar,
    Sigga

    SvaraRadera

Skicka en kommentar

Populära inlägg i den här bloggen

Ananasklipping

Ég lauk við að lesa bókina Millilendingu (sem ég átta mig núna á að hefur sama titil og plata með Megasi, endurnýttir titlar er efni sem ég hef stundum rætt um við vini mína) og fannst hún virkilega skemmtileg og vel skrifuð. Hefði ég verið valdamikill yfirlesari handrits hefði ég samt breytt endinum örlítið, þ.e.a.s. hnikað orðalagi og á einum stað (bls. 151) hefði ég líka bætt orðinu við inn í. Málbreyting sem ég tók eftir fyrir einhverju síðan hefur nefnilega ratað inn í bókina, hún felst í því að sleppa því að hafa orðið við við hliðina á orðunum hliðina á. Stundum skrifar fólk jafnvel hliðiná og sleppir orðinu við. Til útskýringar: Í bókinni stendur Að dansa hliðina á þessu liði (aðalpersónan er að dansa á skemmtistaðnum B5). Mér finnst þetta áhugaverð málbreyting og sé hana víða, til dæmis á Twitter og í fasteignaauglýsingum. Annað sem mér finnst umhugsunarvert er að á baki bókarinnar er klausa eftir Hallgrím Helgason (ég hef líka rætt svona tilvitnanir í merkilegt fólk á bók

Mauradráp á Sikiley

Í gær sat ég á sólbekk við sundlaug á strandhóteli á Sikiley og horfði á maura vinna í því að flytja líkið af stórri, dauðri bjöllu. Fyrst reyndu nokkrir maurar að lyfta undir framendann á henni, eins og þeir hefðu hugsað sér að rúlla henni, það gekk ekki og hópur dreif að, maurarnir röðuðu sér í kringum bjölluna og bjuggu sig undir að lyfta henni í sameiningu. Ég fylgdist með þessu í nokkrar mínútur en skyndilega stóð upp heimilisfaðir á næsta sólbekk (hann var með stóra silfurkeðju um hálsinn og nöfn barnanna sinna flúruð á sig) og þreif bjölluna upp af sundlaugarbakkanum og henti henni út í runna. Svo stappaði hann ofan á maurahópnum með flip-flop töfflunni sinni. Nú situr þessi maður á næsta borði við mig í morgunverðarsal hótelsins og borðar kökur. Það er ekkert ósætt brauð, nema örþunnar fransbrauðsneiðar, í boði hérna en kökuhlaðborðið er rosalegt. Allskonar tertur og flórsykurstráð sætabrauð í röðum á borðinu og nettar ítalskar konur raða í sig í kringum mig. Mauramorðinginn

Bækur og tré

Fyrrverandi bókaútgefandi sem er núna rithöfundur segir hér að bækur séu að styttast. Ég veit ekki hvort það sé rétt en sumar þykkar bækur eru samt farnar að fara í taugarnar á mér. Vissulega las ég alla doðrantana í ritröð Karls Ove Knausgårds, sem fjalla mestmegnis um hann sjálfan (og svo er langt innslag í einni bókinni um Hitler, en ég nennti nú ekki að lesa það allt), en eftir á hugsaði ég með mér að þetta væri auðvitað óþolandi manspreading hjá karlinum, hvers vegna finnst þessum manni hann mega taka svona mikið pláss í hillum og svona langan tíma af lífi okkar? Ein bók þar sem þetta kemur aðeins við sögu er Sandárbókin eftir Gyrði Elíasson. Sú bók er 118 blaðsíður, sem mér finnst einmitt rétta lengdin. Hún er líka mjög skemmtileg og ég væri til í að sjá bíómynd eftir henni. Það gerist raunar ekki mikið í bókinni, þarna er einhver maður sem býr í hjólhýsi og málar myndir af trjám og veltir ýmsu fyrir sér. Til dæmis því að bækur séu búnar til úr trjám og að það sé óvistvænt og f

My friend and I

Undanfarið hef ég svolítið verið að hugsa um bókmenntagagnrýni, já eða mögulegan skort á henni og bókmenntaumræðu almennt, og um eitthvað sem Páll Baldvin Baldvinsson skrifaði í opnu bréfi fyrir nokkrum árum, þegar hann hætti að gagnrýna bækur. Í morgun, þegar ég vaknaði allt of snemma, datt mér í hug að fara á fætur og skrifa það sem ég var að hugsa og finna bréf Páls og hugleiðingu sem ég skrifaði í norska blaðið Klassekampen þar sem gagnrýni var til umræðu. Ég fór á fætur og inn á baðherbergi og rak þá augun í bók Jóhanns Hjálmarssonar, Malbikuð hjörtu , lúið eintak sem kom út árið 1961 og er með teikningu eftir Alfreð Flóka á kápunni. Ég fór að fletta bókinni (já, á klósettinu) og las meðal annars ljóð sem  heitir Skugginn . Þá rifjaðist upp fyrir mér að ég hefði heyrt að Jóhann Hjálmarsson hefði einhvern tíma lögsótt hljómsveitina Trúbrot fyrir að stela frá sér texta ljóðsins. Það tók ekki margar sekúndur að finna útúr því hvernig málinu lauk (dómurinn féll í desember árið 1974).

Drottninggatan

Ég er stödd á gistiheimili í Stokkhólmi. Í gærkvöldi át ég salat upp úr plastboxi í kvöldmat og hámhorfði svo á Skam. Mér finnst þetta skemmtilegir þættir en ég og vinir mínir vorum nú ekki alveg jafn þroskuð við upphaf menntaskólanáms eins og norsku ungmennin. Þau eru líka sennilega eldri en þau eiga að vera, ég meina sko leikararnir. Þannig virkar kannski leiklistarbransinn, fyrst leikur fólk niður fyrir sig og síðan upp fyrir sig og svo er það rekið. Hádegismaturinn var bökuð kartafla með skagenröra. Í kvöld ætla ég að hitta þýðanda og forleggjara og drekka með henni bjór. Á morgun held ég ferðinni áfram, þá er sex klukkustunda lestarferð á dagskrá.

Meint sakleysi

Um daginn sá ég nýja íslensk/útlenska mynd um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Það er margt ágætt í myndinni en ekkert kom mér á óvart, enda hef ég fylgst með þessu undarlega ruglmáli og lesið ótal plögg um það frá barnæsku. En í myndinni kom fram sú vafasama söguskoðun að fram á 8. áratug síðustu aldar hafi Ísland verið lítið samfélag þar sem allir þekktu alla og að hér hafi ríkt óskaplegt sakleysi fram til þess tíma er tveir margumræddir menn gufuðu upp. Þetta fór örlítið fyrir brjóstið á mér. Ekki er ég neinn sagnfræðingur, og raunar algjör amatör með mjög gloppótta söguþekkingu, en ég hef lesið blöð, bækur og dómsskjöl og veit vel að Ísland fortíðar var ekkert saklaust krúttsamfélag frekar en núna og á Íslandi hvarf fólk, það voru framdir glæpir, hér var spilling og ýmislegt vafasamt í gangi löngu fyrir tíma Guðmundar- og Geirfinnsmáls. Í gærkvöldi var ég að hugsa um þessa áhugaverðu söguskoðun, að Ísland hafi verið laust við glæpi og spillingu langt fram eftir síðustu öld. Það leid

Djamm og djobb í Åmål og Gautaborg

Nú er ég aftur sest við skrifborðið í bókmenntahúsinu í Åmål, sama húsi og rithöfundurinn, fréttaritarinn og hænsnabóndinn Ida Bäckmann bjó í sem barn. Ég gleymdi reyndar að minnast á það í bókablogginu um Idu að ég væri með vinnuaðstöðu á æskuheimili hennar. Páskunum var eytt í hinni indælu Gautaborg þar sem við sáum meðal annars fallega sýningu á verkum Tove Jansson á listasafni. Mig langar svolítið að þýða Sommarboken eftir Tove Jansson, kannski finn ég einhvern flöt á því fljótlega. Mér finnst að hún ætti að vera til á íslensku. Öll söluvaran með múmínálfamyndum er svolítið að kæfa hin raunverulegu verk Tove. Í Gautaborg sá ég líka rottu skjótast inn í McDonalds-kassa í Brunnsparken og sitthvað fleira áhugavert. Lestarferðin til Åmål á páskadag tók hins vegar fimm tíma í stað eins og hálfs vegna járnbrautarslyss, og var reyndar um tíma rútuferð. Á öðrum degi páska var ekki mikið stuð í Åmål en það var samt hægt að fá sér bakaða kartöflu með skagenhræru og hlusta á dúndrandi t

Ljótar ljósmyndir

Stolin mynd af bæjarleikhúsinu  Í krummaskuðinu Krummaborg er gamalt leikhús sem á sér langa sögu . Það stendur við götu sem heitir Horní og er um 200 metra frá aðaltorginu þar sem ég er stödd núna. Í leikhúsinu er kaffihús/bar, eina slíka lókalið ég hef komið inn á í Tékklandi þar sem ekki má reykja. Anddyri leikhússins minnir mig pínulítið á gamla Nýja bíó eða jafnvel Hafnarfjarðarbíó (sem var eitt fallegasta bíó Íslands - en auðvitað var það eyðilagt), það er einhver svoleiðis stemning þarna. Kaffihúsið á neðstu hæð er skemmtilega gamaldags og ekkert of fínt, mismunandi ljósakrónur og lampar og þjónustustúlkan var hressileg. Mér leið samt dálítið eins og á kaffistofu sagnfræðinga við Háskóla Íslands þarna inni í gærkvöldi. Á svæðinu voru nefnilega tólf karlar og ein kona (ég). Já og skömmu síðar bættist þrettándi karlinn í hópinn. Úr anddyrinu Hann hefur komið sér upp listamannslegu yfirbragði dávaldurinn og stjörnu- spekingurinn frá Budejovice. Kannski han

Damelitteratur

Á Bókmenntahátíð í Reykjavík í vor ræddi ég, í minglveislu, um Tove Ditlevsen við fremur ungan danskan útgefanda sem var gestur á hátíðinni. Hann sagði að honum fyndist gaman hvað Tove væri loks að ná út í stóra heiminn hátt í hálfri öld eftir andlát sitt. Hann sagði mér líka að þegar hann var að læra bókmenntafræði, sem var varla fyrir mjög löngu þessi maður er örugglega ekki orðinn fertugur, sagði prófessor sem kenndi honum einhver námskeið það vera dæmi um slæman bókmenntasmekk að kunna að meta Tove Ditlevsen. Hún var sögð banal og gamaldags og Nanna Mogensen sem er gagnrýnandi hjá Danmarks Radio sagði líka að bækur Tove Ditlevsen hefðu fyrir nokkrum áratugum verið afgreiddar sem „damelitteratur“ það þarf ekkert að útskýra hvað sá stimpill gerir fyrir bókmenntaverk. Tove Ditlevsen gaf út fyrstu bók sína, ljóðasafnið Pigesind árið 1939, þá var hún rúmlega tvítug og gift mörgum áratugum eldri manni, Viggo F. Møller, sem hún skildi síðan fljótlega við eins og sagt er frá í Gift , sem

Karl skrifar bók - kona les bók

Nú er ég búin að lesa aðra bókina sem ég hef keypt hérna í Kaupmannahöfn. Það er bókin Store Kongensgade 23 eftir Søren Ulrik Thomsen (f.1956). Ég held að mér sé óhætt að segja að Søren Ulrik sé eitt þekktasta ljóðskáld Dana. Hann byrjaði sem módernisti en hefur seinni árin verið að færa sig yfir í alþýðlegri kveðskap (þetta las ég einhvers staðar og sel ekki dýrar en ég keypti, ekki ætla ég að þykjast vera vel lesin eða búin að ígrunda ljóð hans). Litla bókin ( et essay , kallar hann hana), sem ber nafn heimilisfangs þar sem hann bjó í eitt ár þegar hann flutti með fjölskyldunni til Kaupmannahafnar utan af landi 17 ára ga mall, er eins konar endurminningabók. Hún fjallar um mótunarár höfundarins og móður hans sem veiktist á geði þegar hann var ungur. Søren Ulrik Thomsen er níu árum eldri en ég. Það má auðvitað segja að við séum bæði svolítið roskin og með annan fótinn á grafarbakkanum, en mér finnst samt fyndið að hann skrifar svolítið eins og hann sé háaldraður maður. Það er samt ka