Fortsätt till huvudinnehåll

Í Bæheimi

Horft yfir borgina fyrsta daginn
Þórunn Hrefna biður mig að skrifa eitthvað um svaðilfarir mínar í Tékkó. Það er auðvitað gleðilegt að fólk vilji heyra af mögulegum svaðilförum mínum og ég er reyndar búin að vera í heila viku hér í Český Krumlov í Tékklandi án þess að skrifa neitt  á þessa bloggsíðu sem ég ákvað eiginlega að ætti að vera upphafið að nýju bloggi, og það ekki síst ferðabloggi. Tími til kominn skulum við segja.

Hins vegar var alltaf ætlunin að vinna hér í þessum mannfáa miðaldabæ og það hef ég svo sannarlega gert undanfarna viku. Ég hef þýtt margar síður og lesið heilar þrjár bækur. En ég hef líka borðað mikið af ódýrum og góðum mat og drukkið vín frá Moravíu og tékkneskan bjór.



Ferðin hingað hófst eins og ferðir frá Reykjavík gera oftar en ekki. Mæting fyrir allar aldir í Keflavík, sextug húsmóðir frá Hvolsvelli á næsta borði að drekka Breezer og fá sér samloku og síðan fer maður auðvitað út í vél. Nú skal það upplýst að þó að ég sé afar svöl í aðra röndina þá er ég óttalegur nevrótíker á köflum, ekki síst þegar vítisvélar háloftanna eru annars vegar. Og ekki batnar það þegar vélin snýr við úti á brautarenda og er ekið aftur upp að flugstöðvarbyggingu þar sem flugstjórinn segir í hátalarakerfið að eldsneytisdæla sé biluð og að flugvirkjar ætli að redda því. Jú, jú, völundar flugvélanna redduðu málunum auðvitað og í loftið komumst við skömmu síðar og lentum mjúklega í München um hádegið þó að svala taugahrúgan óttaðist bensínstíflu með tilheyrandi nauðlendingu í Atlantshafinu. Á flugvellinum tók á móti okkur geðþekkur, úlpuklæddur maður, á að giska tvítugur, með hipsteragleraugu, gulbrúna húð og dökkt hár, veifandi spjaldi. Við vorum búin að panta skutlu í gegnum netsíðu. Skutlan var ómerktur volkswagen, ekinn hátt í fjögur hundruð þúsund kílómetra og þegar komið var út á hraðbrautirnar var bensínið stigið í botn, við erum að tala um svona 140 kílómetra hraða. Þá þurfti svali nevrótíkerinn að bíta á jaxlinn, ekki síst í upphafi ferðar þegar bílstjórinn fór hvað eftir annað á facebook meðan á akstri stóð, á milli þess sem hann spjallaði í símann. Á vegunum var snjór á köflum en samt þutu Audi-bílar og BMW fram úr okkur eins og vindstrengir, það sem þetta fólk getur brunað! Þegar af hraðbrautunum kom var ekið um sveitavegi meðfram landamærum Austurríkis og eftir hátt í 400 kílómetra, sem tók þó ekkert gríðarlegan tíma að aka, stöðvaði bíllinn fyrir utan hótel Zlatý Andel, Gyllta engilinn, við aðaltorgið í Krumluborg þar sem Hitler hélt ræðu árið 1938 þegar Þjóðverjar hertóku Súdetahéruðin. Reikningurinn hljóðaði upp á rúmar 20 þúsund krónur, mér er sem ég sæi það duga fyrir ferð í leigubíl frá Reykjavík til Akureyrar! Já eða reikningur? það var enginn reikningur í boði, ég lái sígaununum það ekki að nenna ekki að standa í svoleiðis nokkru. Og talandi um sígauna þá er ég einmitt búin að lesa eina bók um þá hérna í Český Krumlov, ég tók með mér viðeigandi lesefni til hjarta Evrópu, það er auðvitað hluti af almennilegu ferðaplani að lesa. Reyndar er ég með "sígaunadellu" og þetta er líklega fjórða bókin um sígauna sem ég les, þá síðustu las ég fyrir skömmu og svo á ég eina heima sem ég á eftir að lesa. Þegar ég kom hingað og fór að lesa mér betur til þá kom í ljós að þessi bær er töluverður sígaunabær, þeir reka líka lítinn bar/veitingahús hér í næstu götu, sem er mjög vinsæll, og auðvitað erum við búin að fara þangað og fá okkur gúllas og tilheyrandi hjá glæsilegum og þjónustuliprum sígaunabaróni og eigum örugglega eftir að fara aftur.


Hótel Gyllti engillinn er ljómandi fínn dvalarstaður. Við fengum herbergi með gullbaðkari, plastparketi, antíkhúgögnum og sjö metra lofthæð, öskubakkar á fæti eru í skotum, ágætiskaffihús á neðstu hæð sem fyllist af öldruðum Þjóðverjum um miðjan morgun, staðsetningin er stórkostleg og hér er gott að vera. Maturinn á fjölmörgum veitingahúsum bæjarins er líka ágætur, allt frá gnocchi með súrkáli og reyktu kjöti til pítsa af ýmsum gerðum. Hér er ekki einn einasti alþjóðlegur keðjustaður, ekkert Burger King, ekkert Starbucks eða þvíumlíkt og það er auðvitað algjörlega stórkostlegt að enn séu til heilir bæir sem eru lausir undan þeirri krumlu kapítalistaalþjóðavæðingarinnar. Veðrið hefur verið býsna kalt hér þessa viku, en ekkert sem maður klæðir ekki af sér með föðurlandi og dúnúlpu.

Á dagskrá er að skrifa meira bráðlega en þangað til af því verður eru hér nokkrar misvelteknar símamyndir.

Útsýnið út um herbergisgluggann

Bókabúð í næstu götu

Namestí Svorností, aðaltorgið í Ceský Krumlov. Myndin er tekin út um glugga morgunverðarsalarins þar sem alltaf  er kalt freyðivín í boði með beikoninu, pylsunum, eggjunum og bakkelsinu. Þar sem bílarnir þrír standa (þarna er nú lögreglustöð bæjarins) stóð Hitler þegar hann þrumaði yfir lýðnum á sínum tíma.
Ekki spara menn ólífurnar á pítsurnar



Miðaldakjallarar og katakombur eru undir öllum húsum



Í þessu húsi eru vinnusamir líffræðingar á námskeiði

Þarna geng ég daglega

Hótel Gyllti engillinn, konur á leið heim úr kirkju spjalla á torginu

Dæmigert stræti, búðin hægra megin er næsta matvörubúð við hótelið

Moldá

Veitingahús góða dátans Svejk

Hádegisverður á Svejk-barnum. Andapaté með sultu, súrdeigsbrauð og ýmislegt fleira
Cesky Krumlov árið 1989


Kommentarer

  1. Takk fyrir þetta fyndna og skemmtilega blogg! Myndirnar eru dásemd.
    Hafðu það nú gott það sem eftir er dvalar.

    kk
    ÞH

    SvaraRadera
  2. Já þetta var sko skemmtilegt að lesa! Skil þig svo vel hvað varðar flughræðsluna og bílstjórann í facebook og síma. Njóttu verunnar áfram!

    Bestu fáanlegar,
    Sigga

    SvaraRadera

Skicka en kommentar

Populära inlägg i den här bloggen

Kynlíf langömmu þinnar

Í Politiken er greinarflokkur þar sem starfsfólk safna er spurt um áhugaverða gripi á söfnunum sínum. Í dag var ég að lesa um græju sem var víst til á langflestum dönskum heimilum á fyrri hluta síðustu aldar og var að sögn safnvarðar á dönsku safni notuð sem getnaðarvörn í áratugi. Tækið var notað til að skola út sæði eftir samfarir, en einnig til skolunar eftir fæðingar og ólögleg þungunarrof. Ílátið var fyllt af vatni og hengt hátt upp og svo var spúlað út með hjálp þrýstings og vatns. Þetta tæki mun hafa verið algengt frá 1920 til 1950, en var einnig töluvert notað eftir það því pillan kom jú ekki á markaðinn fyrr en á sjöunda áratugnum. Ýmist var notað hreint vatn eða að út í það var blandað ediki eða sítrónusafa, en það mun ekki hafa verið hollt fyrir líkamann, sýrustigið gat farið í tómt rugl. Svo er þetta ekki sérlega góð getnaðarvörn heldur, en sennilega betra en ekki neitt.  Safnvörðurinn sem er til viðtals í Politiken segir að þessi græja hafi verið gríðarlega mikið notuð...

Karladýrkun

Ein birtingarmynd karlasamfélagsins æpti á mig úr hillu með óskálduðum bókum sem ég gekk framhjá á Kastrupflugvelli í gær (það stendur non-fiction fyrir ofan hilluna). Þarna er nú aldeilis enginn skortur á bókum um og eftir karlmenn þar sem kápumyndin er af aðalkarlinum. Svo lúrir þarna Britney Spears innan um karlana, en hún er ber að ofan. Og svipuð sjón er auðvitað svo algeng að fæst fólk sér nokkuð athugavert við þetta. Þegar athygli er vakin á þessu er gjarna sagt að þetta sé alveg örugglega bara einhver tilviljun.   

Félagsbústaðir og vélanám

Það eru nokkrar rásir sem spilast í höfðinu á mér á hverjum tíma. Það er svo sem ekkert beinlínis að því (ég hélt einu sinni að allt fólk væri svona en nú skilst mér að það séu tekin lyf við þessu) en alla vega ákvað ég að skrifa niður eitthvað af því sem hefur bergmálað innra með mér í morgun. Byrjum á einni spurningu: Hvenær tók Vanilla Black, sem er útum allt í flösku sem pinnar standa uppúr, við af Ariel Ultra sem íslenska ríkislyktin? Ég hef oft rætt um Norðmanninn sem sagði mér að hann þekkti Íslendinga í strætó í Osló á þvottaefnislyktinni, en núna er það þessi Vanilla Black-lykt sem hefur yfirtekið þjóðfélagið. Mér persónulega finnst hún betri en þvottaefnislykt (ég nota bara svansmerkt og lyktarlaust þvottaefni) og er alveg í vanillu-teyminu, en þetta er samt kannski að verða gott með þessa lykt? Á meðan lesendur velta þessu fyrir sér ætla ég að snúa mér að næsta máli: Það bjó svokallaður svikahrappur í íbúð Félagsbústaða í um það bil áratug og át þar lyf út á resept látinnar ...

Áfram gakk

Eldsnemma í morgun las ég þráð á samskiptamiðlinum Threads, sem var spjall um hvernig fólk komst að því að nánir aðstandendur voru CIA-njósnarar, einhverjir þeirra höfðu meira að segja verið gagnnjósnarar. Þegar afi eins á spjallinu dó fundust fimm ólík vegabréf sem hann átti, með mismunandi nöfnum, ein hafði búið með fjölskyldunni í Líberíu, Guatemala og einhverjum fleiri löndum og pabbi hennar vann hjá hernum og nú var að renna upp fyrir henni að hann var starfsmaður CIA og ein á spjallinu sagði pabba sinn alltaf hafa verið með tölvuherbergi með fimm mismunandi tölvum og allskonar græjum, áður en almenningur var með tölvur heima hjá sér, og nú var hún að komast að því að hann var njósnari. Þetta fannst mér skemmtilegt í ljósi þess að ég gerði fjóra útvarpsþætti s em finna má á í sarpinum á RÚV og þar er einmitt minnst á CIA í síðasta þættinum . Þættirnir fjalla um blaðbera sem hvarf árið 1976. Í þáttunum er líka minnst á sænskan spjallþráð þar sem rætt er um hvarf bréfberans, sem hét...

Táin á Tollundmanninum

Í Silkeborg á Jótlandi eru varðveittar leifar af manni sem fannst í danskri mýri um miðja síðustu öld. Þegar ég var unglingur fór ég og skoðaði Tollundmanninn og fékk þessa rúmlega tvö þúsund ára gömlu múmíu svolítið á heilann og póstkort af karlinum hékk árum saman uppi á vegg í herbergjum sem ég bjó í. Á þeim árum var ekki til neitt internet og ég fann sáralitla umfjöllun um þennan forvitnilega mann svo póstkortið varð að duga mér í mörg ár. Þegar ég, ásamt góðum meðhöfundi, skrifaði kennslubók fyrir miðstig grunnskóla fyrir nokkrum árum, sá ég til þess að koma Tollundmanninum inn í bókina og ég vona að börnin sem lesa hana og kennarar þeirra kunni að meta það. Þegar ég sé fjallað um Tollundmanninn, og fleira fólk sem hefur fundist í mýrum í Danmörku, verð ég alltaf forvitin og meðal þess sem mér hefur fundist skemmtilegt er frétt sem birtist í dönskum fjölmiðlum fyrir nokkru síðan. Fréttin fjallar um tá sem var á fæti Tollundmannsins en lenti á flækingi. Það hafa ýmis vandamál ko...

Aðlögun og ættfræði og fólkið sem vill kannski skrifa bækur fremur en lesa þær

Það er mánudagur og rétt komið hádegi. Efsta atriðinu á listanum yfir það sem ég ætlaði að gera í dag er samt þegar lokið. Ég er búin að senda inn umsókn um listamannalaun fyrir árið 2025. Eiríkur Örn Norðdahl gerði listamannalaunaumsóknarskrifum skil um daginn og talar (í léttum tóni samt) um þessa h*$#*s ritlaunaumsókn . Hann vill fá fastráðningu og ég lái honum það svo sem ekki, það er ákveðin áskorun að sækja árlega um laun fyrir vinnu næsta árs og lifa síðan í nokkurra mánaða óvissu um hvort þau fáist. Það er hins vegar fjarri mér að kvarta, í fyrsta lagi er ég mjög þakklát fyrir hvern einasta mánuð sem ég hef fengið listamannalaun fyrir að sinna skrifum (ég fékk jákvætt svar við launaumsókn í fyrsta skipti þegar ég var að nálgast fimmtugt og var búin að gefa út þó nokkrar frumsamdar bækur og þýðingar) og svo finnst mér ekkert leiðinlegt að skrifa umsóknina. Þá gefst færi á að rifja upp verkefni ársins sem er að líða (það þarf auðvitað að uppfæra ferilsskrána) og setja saman text...

Þýðingar

Ekki hef ég enn lesið bók eftir nýjan Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum en ég hef heyrt umræður um bækurnar hennar, bæði þegar Grænmetisætan kom út á íslensku og eftir að tilkynnt var að Han Kang fengi verðlaunin. Í gær birtist lesendabréf í sænska blaðinu DN þar sem kona sem heitir Anne-Marie Morberg er að býsnast yfir því hvað þýðendur fái litla athygli í stóra bókmenntasamhenginu. Þeirra tungumálaþekking og málkennd byggir brýr yfir landamæri á milli tungumála og þegar Han Kang er hyllt fyrir ljóðrænan prósa á Norðurlöndum þá er líka verið að hrósa þýðendunum sem koma textanum til skila, það ætti alla vega að vera þannig, segir Anne-Marie sem skrifar lesendabréfið. Hún segist hins vegar hafa þurft að hafa fyrir því að fletta upp nafni þess sem hefur þýtt Han Kang á sænsku því á það hefur varla verið minnst í sænskum fjölmiðlum. Eftir að þetta lesendabréf birtist hefur fleira fólk stigið fram og tekið undir, meira að segja hefur verið bent á það að þýðandi eigi höfundarrétt á sænskum...

Nýtt ár og nýtt blogg

Byrjum á Ninu Hemmingsson. Ég er einmitt með nýju ljóðabókina hennar á náttborðinu.

Norræn hlaðvörp og íslensk ættfræði

Ekki hef ég mátt vera að því að skrifa mikið hér undanfarið. Trúið mér eða trúið mér ekki en ég hef haft mikið að gera. Um daginn skrapp ég til Svíþjóðar, nánar til tekið til Emmaboda í Smálöndum þar sem var tekið vel á móti mér. Þangað tók ég lest frá Kaupmannahöfn og auðvitað eru lestar langbesti ferðamátinn. Ég var með nesti og bókað sæti og rak stelpu úr sætinu mínu við gluggann. Fékk auðvitað samviskubit (ég er svo vonlaus í að vera frekjubeygla og á svo erfitt með að láta hafa fyrir mér) en ég hef svo oft verið rekin úr bókuðum sætum sem ég hef hlammað mér í í sænskum og dönskum lestum að ég ákvað að taka þetta alla leið. Skandinavíska kerlingaleiðin er að vera jobbig týpa sem kann mun á réttu og röngu og er með prinsipp. Ég þekki mitt fólk og hef ákveðið að svara í sömu mynt.  Undanfarið hef ég vanið mig á að hlusta á podköst áður en ég sofna. Margt fólk segist láta hlaðvarpsþætti svæfa sig svo ég ákvað að prófa. Í fyrstu valdi ég of áhugaverða þætti, ég var oftast svo áhuga...

Bækur og tré

Fyrrverandi bókaútgefandi sem er núna rithöfundur segir hér að bækur séu að styttast. Ég veit ekki hvort það sé rétt en sumar þykkar bækur eru samt farnar að fara í taugarnar á mér. Vissulega las ég alla doðrantana í ritröð Karls Ove Knausgårds, sem fjalla mestmegnis um hann sjálfan (og svo er langt innslag í einni bókinni um Hitler, en ég nennti nú ekki að lesa það allt), en eftir á hugsaði ég með mér að þetta væri auðvitað óþolandi manspreading hjá karlinum, hvers vegna finnst þessum manni hann mega taka svona mikið pláss í hillum og svona langan tíma af lífi okkar? Ein bók þar sem þetta kemur aðeins við sögu er Sandárbókin eftir Gyrði Elíasson. Sú bók er 118 blaðsíður, sem mér finnst einmitt rétta lengdin. Hún er líka mjög skemmtileg og ég væri til í að sjá bíómynd eftir henni. Það gerist raunar ekki mikið í bókinni, þarna er einhver maður sem býr í hjólhýsi og málar myndir af trjám og veltir ýmsu fyrir sér. Til dæmis því að bækur séu búnar til úr trjám og að það sé óvistvænt og f...