Fortsätt till huvudinnehåll

Í Bæheimi

Horft yfir borgina fyrsta daginn
Þórunn Hrefna biður mig að skrifa eitthvað um svaðilfarir mínar í Tékkó. Það er auðvitað gleðilegt að fólk vilji heyra af mögulegum svaðilförum mínum og ég er reyndar búin að vera í heila viku hér í Český Krumlov í Tékklandi án þess að skrifa neitt  á þessa bloggsíðu sem ég ákvað eiginlega að ætti að vera upphafið að nýju bloggi, og það ekki síst ferðabloggi. Tími til kominn skulum við segja.

Hins vegar var alltaf ætlunin að vinna hér í þessum mannfáa miðaldabæ og það hef ég svo sannarlega gert undanfarna viku. Ég hef þýtt margar síður og lesið heilar þrjár bækur. En ég hef líka borðað mikið af ódýrum og góðum mat og drukkið vín frá Moravíu og tékkneskan bjór.Ferðin hingað hófst eins og ferðir frá Reykjavík gera oftar en ekki. Mæting fyrir allar aldir í Keflavík, sextug húsmóðir frá Hvolsvelli á næsta borði að drekka Breezer og fá sér samloku og síðan fer maður auðvitað út í vél. Nú skal það upplýst að þó að ég sé afar svöl í aðra röndina þá er ég óttalegur nevrótíker á köflum, ekki síst þegar vítisvélar háloftanna eru annars vegar. Og ekki batnar það þegar vélin snýr við úti á brautarenda og er ekið aftur upp að flugstöðvarbyggingu þar sem flugstjórinn segir í hátalarakerfið að eldsneytisdæla sé biluð og að flugvirkjar ætli að redda því. Jú, jú, völundar flugvélanna redduðu málunum auðvitað og í loftið komumst við skömmu síðar og lentum mjúklega í München um hádegið þó að svala taugahrúgan óttaðist bensínstíflu með tilheyrandi nauðlendingu í Atlantshafinu. Á flugvellinum tók á móti okkur geðþekkur, úlpuklæddur maður, á að giska tvítugur, með hipsteragleraugu, gulbrúna húð og dökkt hár, veifandi spjaldi. Við vorum búin að panta skutlu í gegnum netsíðu. Skutlan var ómerktur volkswagen, ekinn hátt í fjögur hundruð þúsund kílómetra og þegar komið var út á hraðbrautirnar var bensínið stigið í botn, við erum að tala um svona 140 kílómetra hraða. Þá þurfti svali nevrótíkerinn að bíta á jaxlinn, ekki síst í upphafi ferðar þegar bílstjórinn fór hvað eftir annað á facebook meðan á akstri stóð, á milli þess sem hann spjallaði í símann. Á vegunum var snjór á köflum en samt þutu Audi-bílar og BMW fram úr okkur eins og vindstrengir, það sem þetta fólk getur brunað! Þegar af hraðbrautunum kom var ekið um sveitavegi meðfram landamærum Austurríkis og eftir hátt í 400 kílómetra, sem tók þó ekkert gríðarlegan tíma að aka, stöðvaði bíllinn fyrir utan hótel Zlatý Andel, Gyllta engilinn, við aðaltorgið í Krumluborg þar sem Hitler hélt ræðu árið 1938 þegar Þjóðverjar hertóku Súdetahéruðin. Reikningurinn hljóðaði upp á rúmar 20 þúsund krónur, mér er sem ég sæi það duga fyrir ferð í leigubíl frá Reykjavík til Akureyrar! Já eða reikningur? það var enginn reikningur í boði, ég lái sígaununum það ekki að nenna ekki að standa í svoleiðis nokkru. Og talandi um sígauna þá er ég einmitt búin að lesa eina bók um þá hérna í Český Krumlov, ég tók með mér viðeigandi lesefni til hjarta Evrópu, það er auðvitað hluti af almennilegu ferðaplani að lesa. Reyndar er ég með "sígaunadellu" og þetta er líklega fjórða bókin um sígauna sem ég les, þá síðustu las ég fyrir skömmu og svo á ég eina heima sem ég á eftir að lesa. Þegar ég kom hingað og fór að lesa mér betur til þá kom í ljós að þessi bær er töluverður sígaunabær, þeir reka líka lítinn bar/veitingahús hér í næstu götu, sem er mjög vinsæll, og auðvitað erum við búin að fara þangað og fá okkur gúllas og tilheyrandi hjá glæsilegum og þjónustuliprum sígaunabaróni og eigum örugglega eftir að fara aftur.


Hótel Gyllti engillinn er ljómandi fínn dvalarstaður. Við fengum herbergi með gullbaðkari, plastparketi, antíkhúgögnum og sjö metra lofthæð, öskubakkar á fæti eru í skotum, ágætiskaffihús á neðstu hæð sem fyllist af öldruðum Þjóðverjum um miðjan morgun, staðsetningin er stórkostleg og hér er gott að vera. Maturinn á fjölmörgum veitingahúsum bæjarins er líka ágætur, allt frá gnocchi með súrkáli og reyktu kjöti til pítsa af ýmsum gerðum. Hér er ekki einn einasti alþjóðlegur keðjustaður, ekkert Burger King, ekkert Starbucks eða þvíumlíkt og það er auðvitað algjörlega stórkostlegt að enn séu til heilir bæir sem eru lausir undan þeirri krumlu kapítalistaalþjóðavæðingarinnar. Veðrið hefur verið býsna kalt hér þessa viku, en ekkert sem maður klæðir ekki af sér með föðurlandi og dúnúlpu.

Á dagskrá er að skrifa meira bráðlega en þangað til af því verður eru hér nokkrar misvelteknar símamyndir.

Útsýnið út um herbergisgluggann

Bókabúð í næstu götu

Namestí Svorností, aðaltorgið í Ceský Krumlov. Myndin er tekin út um glugga morgunverðarsalarins þar sem alltaf  er kalt freyðivín í boði með beikoninu, pylsunum, eggjunum og bakkelsinu. Þar sem bílarnir þrír standa (þarna er nú lögreglustöð bæjarins) stóð Hitler þegar hann þrumaði yfir lýðnum á sínum tíma.
Ekki spara menn ólífurnar á pítsurnarMiðaldakjallarar og katakombur eru undir öllum húsumÍ þessu húsi eru vinnusamir líffræðingar á námskeiði

Þarna geng ég daglega

Hótel Gyllti engillinn, konur á leið heim úr kirkju spjalla á torginu

Dæmigert stræti, búðin hægra megin er næsta matvörubúð við hótelið

Moldá

Veitingahús góða dátans Svejk

Hádegisverður á Svejk-barnum. Andapaté með sultu, súrdeigsbrauð og ýmislegt fleira
Cesky Krumlov árið 1989


Kommentarer

 1. Takk fyrir þetta fyndna og skemmtilega blogg! Myndirnar eru dásemd.
  Hafðu það nú gott það sem eftir er dvalar.

  kk
  ÞH

  SvaraRadera
 2. Já þetta var sko skemmtilegt að lesa! Skil þig svo vel hvað varðar flughræðsluna og bílstjórann í facebook og síma. Njóttu verunnar áfram!

  Bestu fáanlegar,
  Sigga

  SvaraRadera
 3. En fallegur Landróver!

  SvaraRadera

Skicka en kommentar

Populära inlägg i den här bloggen

Ljótar ljósmyndir

Í krummaskuðinu Krummaborg er gamalt leikhús sem á sér langa sögu. Það stendur við götu sem heitir Horní og er um 200 metra frá aðaltorginu þar sem ég er stödd núna. Í leikhúsinu er kaffihús/bar, eina slíka lókalið ég hef komið inn á í Tékklandi þar sem ekki má reykja. Anddyri leikhússins minnir mig pínulítið á gamla Nýja bíó eða jafnvel Hafnarfjarðarbíó (sem var eitt fallegasta bíó Íslands - en auðvitað var það eyðilagt), það er einhver svoleiðis stemning þarna. Kaffihúsið á neðstu hæð er skemmtilega gamaldags og ekkert of fínt, mismunandi ljósakrónur og lampar og þjónustustúlkan var hressileg. Mér leið samt dálítið eins og á kaffistofu sagnfræðinga við Háskóla Íslands þarna inni í gærkvöldi. Á svæðinu voru nefnilega tólf karlar og ein kona (ég). Já og skömmu síðar bættist þrettándi karlinn í hópinn.

Kannski hanga tékkneskar konur lítið á kaffihúsum og börum en þegar ég fór á klósettið datt mér í hug önnur skýring á fjarveru þeirra. Í anddyri leikhússins er nefnilega hörmulega ósmek…