Í gær hélt ég útgáfuboð í lokaðri bókabúð sem hafði orðið fyrir tölvuárás og verið skellt í lás. Það mættu samt margir og ég gat farið glöð að sofa í gærkvöldi. Í boðinu var ég spurð hvort ég væri ekki komin í frí. Það fannst mér skemmtilegt því að þó að mér finnist ég eiginlega ekki beinlínis vera í vinnu þá finnst mér ég aldrei eiga frí. Vegna þessarar spurningar ákvað ég samt að taka mér frí í dag frá því að skrifa útvarpsþátta- og sjónvarpsþáttahandrit, sem eru helstu verkefni mín þessa dagana. Ég get ekki afsakað mig með því að þykjast vera upptekin við kynningar á nýjum bókum mínum, þýðingu og smásagnasafni, ég er bókuð á tvo upplestra og alls ekki neitt annað. Þetta er aldeilis eitthvað annað en Eiríkur Örn Norðdahl sem þýtur umhverfis landið með posa og bókakassa og kynnir og selur nýju bókina sína og segist vera til í að mæta í viðtöl í næstu viku. Ég er auðvitað bara miklu latari en Eiríkur og svo er mér svakalega illa við að aka eftir þjóðvegum Íslands að vetrarlagi.
Í morgun las ég, í danska blaðinu Information, grein eftir blaðakonuna Mariu Skov, sem fjallar um bóklestur hennar. Í byrjun ársins 2022 las hún tvær bækur eftir konur, aðra eftir Rachel Cusk, hina eftir Söru Stridsberg og langaði eftir það að lesa meira eftir þessa tvo höfunda. Hún fór að horfa á bókahillurnar sínar og uppgötvaði þá að meirihluti bókanna var eftir karlmenn. Þetta varð til þess að hún ákvað að lesa bara fagurbókmenntir eftir konur á síðasta ári. Eftir á spurði hún sig svo hvort lestur margra bóka eftir konur hefði skipt máli og já, henni finnst lesturinn hafa haft mikla þýðingu. Hún las um konu sem plantaði sjálfri sér eins og tré í garð fyrir utan Teheran, hún las um konu í París sem stakk prjóni upp í legið á sér til að binda enda á meðgöngu, hún las um konu sem lét draum sinn um að synda yfir Ermarsund rætast, hún las um konu sem dó úr leiðindum og hún las um konu sem rifjaði upp hver hún hefði verið árið 1983.
Blaðakonan valdi þessar bækur eftir konur eftir því hvað henni leist vel á og hvað kom upp í hendurnar á henni. Margar voru nýjar bækur höfunda sem mikið var fjallað um og hún fékk í hendurnar sem starfandi blaðakona, t.d. eftir Linn Ullmann og Annie Ernaux, einhverjar fékk hún ábendingar um héðan og þaðan og nokkrar fékk hún að láni eftir að hafa rekið í þær augun í bókahillum hjá fólki sem hún heimsótti. Hún segist ekkert hafa spáð sérstaklega í hvað væri gott eða slæmt í bókum eftir konur og karla, heldur hefur þessi litla tilraun hennar sýnt henni hvað okkur hættir til að velja þá þægilegu leið að lesa það sem mest er tekið, það sem fjallað er um á bókmenntasíðum blaðanna og í menningarþáttum í sjónvarpi, það sem er á vinsældarlistum og aðrir eru að lesa. Hún segir að nýir heimar hafi opnast henni við að beygja af þessari leið, lesa eitthvað nýtt og forvitnilegt sem hún þurfti aðeins að teygja sig eftir eða jafnvel lesa eitthvað sem hún hélt fyrirfram að væri kannski ekki áhugavert.
Maria Skov er ekki menntuð í bókmenntafræði, hún er fjölmiðlafræðingur, þannig að hún hefur ekki kynnst bókmenntum sem fræðigrein og hún segist gjarna hafa látið duga að lesa það sem fær góða fjölmiðlaumfjöllun. Hún nefnir líka að þegar hún las síðast skáldsögur sem henni voru settar fyrir af kennara hafi það verið í menntaskóla rétt fyrir aldamót og að það hafi að mestu leyti verið bækur eftir karla.
Í fyrra birtist grein um rannsókn sem var gerð við Aarhus Universitet þar sem meðal annars kom fram að dönsk blöð birta gagnrýni um miklu fleiri bækur eftir karlkyns höfunda en kvenkyns höfunda og að karlar fá almennt fleiri stjörnur en konur. Danir eru miklir stjörnumenn og það er hægt að fá sex stjörnur (reyndar eru það hjörtu en ekki stjörnur) í Politiken. Þetta hefur væntanlega orðið til þess að Maria Skov hefur í gegnum árin lesið miklu meira eftir karla en konur.
Blaðakonan segir að þetta ár þegar hún las (næstum) bara bækur eftir kvenkyns höfunda hafi orðið til þess að henni finnist hún hafa breyst og öðast nýja reynslu. Bækurnar voru margar um konur sem hún gat á einhvern hátt speglað sig í, hún fór að sjá reynslu sem hún hefur orðið fyrir í lífinu með öðrum hætti en áður og segist núna skilja suma hluti betur en áður. Heimur hennar sé stærri en hann væri annars, hún hafi kynnst röddum sem hún á mikið sameiginlegt með og þannig finnist henni hún tilheyra einhvers konar systralagi með ákveðnum höfundum, sem margar hafa lifað allt öðruvísi lífi en hún, sumar í fjarlægum heimsálfum. Í sumum þessara landa hafði hún dvalið, t.d. ferðaðist hún um lönd Suður-Ameríku í byrjun aldarinnar, þá keypti hún sér bækur sem henni var bent á að lesa, þær voru til dæmis eftir Gabriel Garcia Marquez, Paulo Coelho og Mario Vargas Llosa, ekki ein einasta eftir konu. Danska blaðakonan segir samt að langflestar bækurnar sem hún las á síðasta ári séu eftir konur frá Vesturlöndum, þær eru þýddar á dönsku. Niðurstaðan í stuttu máli er samt sú að bókmenntir geti kennt okkur mikið um heiminn og að hún hafi orðið að viðurkenna fyrir sjálfri sér að hún sé alin upp við heimssýn er að miklu leyti byggð á reynsluheimi karla og að allt of fáar raddir kvenna hafi náð til hennar.
Í lok þessarar löngu greinar í Information segir Maria Skov frá samtali sem átti sér stað eina sumarnótt þegar fólk átti ekki að vera að hittast mikið vegna covid. Hún hafi setið við varðeld ásamt nokkrum vinkonum sínum og ein vinkvennanna trúði þeim fyrir því að hún væri bara hrædd við tvennt í heiminum, annars vegar hákarla og hins vegar karlmenn. Vinkonurnar fóru auðvitað að hlæja en véku síðan talinu að hákörlum og þeirri hættu sem fylgir hlýnun sjávar, að hákarlar fari mögulega að synda um nálægt dönskum ströndum. Karlahræðslan var ekki rædd sérstaklega en Maria Skov játar að í lok síðasta árs hafi hún lesið eina bók eftir karlmann, það er Serotonin eftir Michel Houellebecq, en hana þurfti hún að lesa vegna vinnunnar. Þá rifjaðist þetta með karlana og hákarlana upp, því hún segist nefnilega vera hrædd við karla sem hugsa um konur eins og persónur í verkum Houllebecqs gera. Kuldinn í kvenlýsingum hans hafi setið í beinunum á henni lengi eftir lesturinn. Í Politiken í dag er gagnrýni um nýjustu bók Houllebecqs, hún fær eitt hjarta og það stendur að hann hefði betur látið hana óútgefna.
Your post was a joy to read. Thank you for sharing your wisdom!
SvaraRadera