Á Bókmenntahátíð í Reykjavík í vor ræddi ég, í minglveislu, um Tove Ditlevsen við fremur ungan danskan útgefanda sem var gestur á hátíðinni. Hann sagði að honum fyndist gaman hvað Tove væri loks að ná út í stóra heiminn hátt í hálfri öld eftir andlát sitt. Hann sagði mér líka að þegar hann var að læra bókmenntafræði, sem var varla fyrir mjög löngu þessi maður er örugglega ekki orðinn fertugur, sagði prófessor sem kenndi honum einhver námskeið það vera dæmi um slæman bókmenntasmekk að kunna að meta Tove Ditlevsen. Hún var sögð banal og gamaldags og Nanna Mogensen sem er gagnrýnandi hjá Danmarks Radio sagði líka að bækur Tove Ditlevsen hefðu fyrir nokkrum áratugum verið afgreiddar sem „damelitteratur“ það þarf ekkert að útskýra hvað sá stimpill gerir fyrir bókmenntaverk.
Tove Ditlevsen gaf út fyrstu bók sína, ljóðasafnið Pigesind árið 1939, þá var hún rúmlega tvítug og gift mörgum áratugum eldri manni, Viggo F. Møller, sem hún skildi síðan fljótlega við eins og sagt er frá í Gift, sem kom út á íslensku í fyrra. Eftir það komu margar ljóðabækur, nóvellur, skáldsögur og leikrit og Tove var, á meðan hún lifði, vinsæll höfundur í Danmörku, það er að segja hjá þeim sem kallaðir eru „hinn almenni lesandi“. Síðustu tíu ár hafa bækur Tove Ditlevsen orðið vinsælar aftur, þær hafa verið endurprentaðar og komið út í nýjum þýðingum í grannlöndunum og loks kom að því að Penguin Classics gæfi út bækurnar þrjár, Barndom, Ungdom og Gift og bókmenntapenni New York Times fagnaði mjög, sagði Tove vera stórkostlega hæfileikaríkan höfund og líkti henni meðal annars við Ednu O'Brien sem er í miklu uppáhaldi hjá mér.
Ég hef haldið upp á Tove Ditlevsen síðan ég fór að lesa bækurnar hennar sem unglingur. Hún hefur alltaf talað svo vel til mín og mér finnst frábært að hafa loksins fengið tækifæri til að þýða verk hennar. Það er alveg stórkostlegt að ný kynslóð lesenda hafi áttað sig á því hvað hún var hæfileikarík og miklu dýpri og betri stílisti en menningarmenn og módernistar fortíðar áttuðu sig á. Þeir sáu líklega bara konu úr verkalýðsstétt með geðræn vandamál, einhverja keðjureykjandi töntu sem var alltaf að skipta um eiginmenn og taka pillur, eða hvað veit ég, kannski nenntu þeir bara ekki að lesa bækur eftir konur, ég hef aldrei skilið neitt í þessum körlum!
Tove Ditlevsen dó árið 1976. Núna, svona löngu síðar, er hún fulltrúi eins af tískustraumum samtímabókmennta, sjálfsbókmenntanna, þar sem höfundar dassa inn fullt af sjálfsævisögulegum atriðum í skáldskapinn. Að þessu leyti var Tove löngu á undan mörgum öðrum, Karl Ove Knausgård skrifaði Min kamp, mörg þúsund síður um sjálfan sig í sex bindum, en áratugum á undan honum skrifaði Tove Gift, bók byggða á eigin ævi, sem er kannski 160 síður, en samt alveg risastórt og djúpt bókmenntaverk.
En hvað ætlaði ég að segja? Jú, þýðingin mín á Bernsku er komin út og það var umfjöllun um hana í Heimildinni um daginn.
Kommentarer
Skicka en kommentar