Danir eru kurteisir (kannski er allur heimurinn kurteisari en Íslendingar). Þeir segja „Må jeg be’ om …“ þegar þeir panta pítsu á veitingahúsum eða kaupa sér snúð á Nørrebrogade. En Danir eru líka öðruvísi kurteisir. Undanfarna daga hefur eitthvað verið að trufla mig í öðru auganu svo ég fann mig knúna til að reyna að finna augnlækni til að lækna mig. Eftir flettingar á netinu varð mér fullljóst að ekki væri hlaupið að því að fá læknatíma verandi framandi vera í dönsku þjóðfélagi, eiginlega bara hreinræktaður túristi, og auk þess er heimsfaraldur covid-19 að setja mörg strik í reikning heilbrigðiskerfisins. En ég fann heimasíðu læknastofu niðri í bæ og sendi póst í gærkvöldi og spurði hvort einhver möguleiki væri á að koma mér að. Snemma í morgun fékk ég svar frá læknaritaranum Hanne, sem sagði að það væri hálfs árs bið eftir tíma hjá þeim og engin leið að troða mér að. Þá sendi ég stórri augnlæknastöð í Charlottenlund póst (plan B) og viti menn, ég fékk svar hálftíma síðar. Hálftíma s...