Þessa vikuna dvel ég í Króatíu. Að lenda á flugvellinum í Split er svolítið eins og að lenda á Ísafirði, stefna á fjall og taka svo skyndilega U-beygju (nú ætla ég samt ekki að reyna að ljúga því að ég hafi einhverntíma flogið til Ísafjarðar). Hér er hlýtt loft og volgt Adríahaf sem er svo salt að mér líður eins og nætursaltaðri ýsu eftir að hafa fleygt mér í öldurnar. Mér skilst að gistihúsið sem ég dvel í sé þúsund ára og að næstu hús séu frá því um árið 300 svo mér líður mjög vel. Allt sem er gamalt og mikið notað hentar mér best, þannig hef ég alltaf verið. Helstu merki um að nú geysi heimsfaldur eru þau að það er ekkert vígt vatn í kirkjunum. Í einni vígðavatnsskál í kirkju sem ég heimsótti í fyrradag lá meira að segja bara brúsi með spritti svo að kirkjugestir gætu dassað á sig veiruvörn. Þetta er óneitanlega forsendubrestur fyrir konu sem er vön því að fara inn í evrópskar kirkjur og sletta á sig skítugu vatni í nafni föður og sonar og heilags anda.
Ég er stödd í Kaupmannahöfn og undir lok liðinnar viku var ég að fletta skrám frá Mæðrahjálp borgarinnar frá því á öðrum áratug síðustu aldar. Þar rakst ég á örfá nöfn íslenskra kvenna, og reyndar karla líka, en aðeins tvö sem ég lagði á minnið. Mæðrahjálpin hefur í rúm hundrað ár rekið hjálparstarf í Kaupmannahöfn. Áður störfuðu þar tvö félagasamtök sem aðstoðuðu einstæðar, barnshafandi konur og konur sem höfðu átt börn utan hjónabands, sem var síðan steypt saman í Mæðrahjálpina. Hjálpin fólst meðal annars í að hafa uppi á fjarverandi feðrum, koma börnum til ættleiðingar og að aðstoða við framfærslu. Nöfnin sem vöktu athygli mína voru Elín Elísabet Jónsdóttir og Jóhann Jónsson. Seint á föstudagskvöldið sendi ég Kristínu Svövu Tómasdóttur skilaboð, mig rámaði í þessa færslu sem hún skrifaði á sínum tíma um bókina Angantý. Ég sagði Kristínu að ég hefði ekki lesið bókina en að ég hefði hlustað á útvarpsþætti um Elínu, sem Sóley Stefánsdóttir, afkomandi hennar (sem einnig var nágrann...
Kommentarer
Skicka en kommentar