Fortsätt till huvudinnehåll

My friend and I

Undanfarið hef ég svolítið verið að hugsa um bókmenntagagnrýni, já eða mögulegan skort á henni og bókmenntaumræðu almennt, og um eitthvað sem Páll Baldvin Baldvinsson skrifaði í opnu bréfi fyrir nokkrum árum, þegar hann hætti að gagnrýna bækur. Í morgun, þegar ég vaknaði allt of snemma, datt mér í hug að fara á fætur og skrifa það sem ég var að hugsa og finna bréf Páls og hugleiðingu sem ég skrifaði í norska blaðið Klassekampen þar sem gagnrýni var til umræðu. Ég fór á fætur og inn á baðherbergi og rak þá augun í bók Jóhanns Hjálmarssonar, Malbikuð hjörtu, lúið eintak sem kom út árið 1961 og er með teikningu eftir Alfreð Flóka á kápunni. Ég fór að fletta bókinni (já, á klósettinu) og las meðal annars ljóð sem  heitir Skugginn. Þá rifjaðist upp fyrir mér að ég hefði heyrt að Jóhann Hjálmarsson hefði einhvern tíma lögsótt hljómsveitina Trúbrot fyrir að stela frá sér texta ljóðsins. Það tók ekki margar sekúndur að finna útúr því hvernig málinu lauk (dómurinn féll í desember árið 1974).Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um ljóðið Skugginn. Og spekúlasjónir um bókmenntagagnrýni verða að bíða aðeins því ég þarf að drekka kaffi og sinna andlegum undirbúningi áður en ég fer til tannlæknis. Ég mun reyna að halda áfram að hugsa um þann  bókmenntapóst í tannlæknastólnum á Grensásvegi.

Malbikuð hjörtu, mynd tekin í myrkri.

Kommentarer