Fortsätt till huvudinnehåll

Sólarmegin og skuggamegin

Með morgunkaffinu las ég viðtal við eina af ríkustu manneskjum Bretlands, Sigrid Rausing, og eftir viðtalið nokkrar greinar um hana, bækur hennar og fjölskyldu, en Sigrid Rausing er einn af erfingjum mjólkurfernuveldisins Tetra Pak. Hún er með doktorspróf í mannfræði, eigandi bókaforlags og rithöfundur og svo rekur hún líka góðgerðarstofnanir og gerir margt annað. Nú er Sigrid búin að skrifa bók um samskipti sín við Hans Kristian bróður sinn og konuna hans heitna, Evu Rausing, sem fannst sem liðið lík í húsi þeirra hjóna árið 2012 tveimur mánuðum eftir andlát sitt. Eva dó úr hjartaáfalli af völdum kókaínneyslu en eiginmaðurinn lét líkið liggja inni í herbergi í fimm hæða höll hjónanna í Belgravia í London þar til lögreglan fann það eftir að hann var handtekinn í bílnum sínum algjörlega ruglaður af vímuefnaneyslu. Hjónin, sem kynntust ung á meðferðarstofnun, eiga fjögur börn sem þau misstu forræði yfir, fyrrnefnd Sigrid var á þessum tíma með tímabundið forræði yfir þeim. Og nú er Sigrid búin að skrifa bókina Mayhem sem kemur út hjá Penguin í september og meðal þeirra sem lofa verkið er Íslandsvinkonan Siri Hustvedt. Fjölskyldu Evu Rausing líst hins vegar ekkert á bókina, pabbi hennar, Tom Kemeny, hefur meðal annars tjáð sig um að dóttir hans hafi verið góðhjörtuð og kærleiksrík móðir og hann telur að hún væri enn á lífi ef fólk hefði ekki látið taka af henni börnin.

Sem áhugamanneskja um vel skrifaðar og áhugaverðar ævisögur; skáldaðar, óskáldaðar, hálfskáldaðar, sannar, hálfsannar og svo framvegis, þá finnst mér ég núna verða að lesa bókina Mayhem. En hún er ekki komin út og ég hef líka nóg annað að gera í bili en að lesa allar áhugaverðar bækur heims. Ég glugga samt kannski aftur í endurminningabók eftir góða vinkonu Sigrid Rausing, sem ég heillaðist dálítið af á sínum tíma. Sú kona heitir Johanna Ekström og umrædd bók heitir Om man håller sig i solen. Pabbi Johönnu er sænski rithöfundurinn og akademíukardínálinn Pär Westberg. Á bókamessunni í Gautaborg í fyrrahaust var ég á einhverri stundu stödd í sama herbergi og feðginin. Þau töluðu ekki saman og ég gat ekki merkt að þau gæfu hvort öðru auga, ég efast reyndar um að þau tali mikið saman eftir að þessi bók kom út, en ég gjóaði á þau augunum og hugsaði um hvað þau væru svakalega lík í útliti og fasi.

Kommentarer

Populära inlägg i den här bloggen

Ljótar ljósmyndir

Í krummaskuðinu Krummaborg er gamalt leikhús sem á sér langa sögu. Það stendur við götu sem heitir Horní og er um 200 metra frá aðaltorginu þar sem ég er stödd núna. Í leikhúsinu er kaffihús/bar, eina slíka lókalið ég hef komið inn á í Tékklandi þar sem ekki má reykja. Anddyri leikhússins minnir mig pínulítið á gamla Nýja bíó eða jafnvel Hafnarfjarðarbíó (sem var eitt fallegasta bíó Íslands - en auðvitað var það eyðilagt), það er einhver svoleiðis stemning þarna. Kaffihúsið á neðstu hæð er skemmtilega gamaldags og ekkert of fínt, mismunandi ljósakrónur og lampar og þjónustustúlkan var hressileg. Mér leið samt dálítið eins og á kaffistofu sagnfræðinga við Háskóla Íslands þarna inni í gærkvöldi. Á svæðinu voru nefnilega tólf karlar og ein kona (ég). Já og skömmu síðar bættist þrettándi karlinn í hópinn.

Kannski hanga tékkneskar konur lítið á kaffihúsum og börum en þegar ég fór á klósettið datt mér í hug önnur skýring á fjarveru þeirra. Í anddyri leikhússins er nefnilega hörmulega ósmek…