Fortsätt till huvudinnehåll

Meint sakleysi

Um daginn sá ég nýja íslensk/útlenska mynd um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Það er margt ágætt í myndinni en ekkert kom mér á óvart, enda hef ég fylgst með þessu undarlega ruglmáli og lesið ótal plögg um það frá barnæsku. En í myndinni kom fram sú vafasama söguskoðun að fram á 8. áratug síðustu aldar hafi Ísland verið lítið samfélag þar sem allir þekktu alla og að hér hafi ríkt óskaplegt sakleysi fram til þess tíma er tveir margumræddir menn gufuðu upp. Þetta fór örlítið fyrir brjóstið á mér. Ekki er ég neinn sagnfræðingur, og raunar algjör amatör með mjög gloppótta söguþekkingu, en ég hef lesið blöð, bækur og dómsskjöl og veit vel að Ísland fortíðar var ekkert saklaust krúttsamfélag frekar en núna og á Íslandi hvarf fólk, það voru framdir glæpir, hér var spilling og ýmislegt vafasamt í gangi löngu fyrir tíma Guðmundar- og Geirfinnsmáls.

Í gærkvöldi var ég að hugsa um þessa áhugaverðu söguskoðun, að Ísland hafi verið laust við glæpi og spillingu langt fram eftir síðustu öld. Það leiddi mig einhvern veginn að því að ég fór að lesa mér til um Ingimarsmálið svokallaða, sem er flestum löngu gleymt og kannski var það aldrei mikið rætt. Ingimar Jónsson var prestur og framámaður í Alþýðuflokknum, sem var gerður að skólastjóra gagnfræðaskóla í Reykjavík, Ingimarsskólanum svokallaða, þar sem hann stjórnaði í áratugi. Skólinn er margoft nefndur í minningargreinum og öðrum blaðagreinum sem mikil fyrirmyndarstofnun þar sem Íslendingar úr alþýðustétt hlutu gagnlega og góða menntun. Ingimar sjálfum er líka lýst sem miklum öndvegismanni, sem og konunni hans, Elínborgu Lárusdóttur skáldkonu og spíritista, sem skrifaði á fjórða tug bóka. En þegar kafað er djúpt í timarit.is og hæstaréttardómur frá 1960 (Nr. 172/1958) er lesinn kemur í ljós að Ingimar var, eftir margra ára málaferli, dæmdur fyrir gígantískan fjárdrátt og þetta mál virðist með svo miklum ólíkindum að mig sundlar. Ingimar rak skólann, að því er virðist, bókhaldslaust og veitti samstarfsmönnum, sonum sínum, prentsmiðjustjóra prentsmiðju Alþýðuflokksins og hinum og þessum úti í bæ og í fjölskyldunni peningalán, sem ýmist voru greidd til baka eða ekki, og spreðaði skattfé út og suður í hitt og þetta eins og þetta væru hans eigin peningar. Eftir að talnaglöggur og samviskusamur fjármálaeftirlitsmaður skóla fór að fetta fingur út í þetta allt saman, og Ingimar var kærður, velktist málið í kerfinu í mörg ár en Ingimar var að lokum dæmdur, ég held samt að hann hafi aldrei þurft að borga peningana sem hann sóaði í áratugi til baka. Auðvitað fléttast allskonar flokkapólitík og klassísk spilling inn í þetta mál og væri ég sagnfræðingur myndi ég hella mér út í að skoða Ingimarsmálið, það er örugglega margt sem leynist þarna sem fróðlegt væri að kynna sér.
P.S. Mér var bent á að þingmaður hefði notað Ingimarsskólann sem dæmi um vel rekinn einkaskóla. Hér má lesa þann málflutning.


Úr dagblaðsfrétt frá 1960

Kommentarer

Populära inlägg i den här bloggen

Ljótar ljósmyndir

Í krummaskuðinu Krummaborg er gamalt leikhús sem á sér langa sögu. Það stendur við götu sem heitir Horní og er um 200 metra frá aðaltorginu þar sem ég er stödd núna. Í leikhúsinu er kaffihús/bar, eina slíka lókalið ég hef komið inn á í Tékklandi þar sem ekki má reykja. Anddyri leikhússins minnir mig pínulítið á gamla Nýja bíó eða jafnvel Hafnarfjarðarbíó (sem var eitt fallegasta bíó Íslands - en auðvitað var það eyðilagt), það er einhver svoleiðis stemning þarna. Kaffihúsið á neðstu hæð er skemmtilega gamaldags og ekkert of fínt, mismunandi ljósakrónur og lampar og þjónustustúlkan var hressileg. Mér leið samt dálítið eins og á kaffistofu sagnfræðinga við Háskóla Íslands þarna inni í gærkvöldi. Á svæðinu voru nefnilega tólf karlar og ein kona (ég). Já og skömmu síðar bættist þrettándi karlinn í hópinn.

Kannski hanga tékkneskar konur lítið á kaffihúsum og börum en þegar ég fór á klósettið datt mér í hug önnur skýring á fjarveru þeirra. Í anddyri leikhússins er nefnilega hörmulega ósmek…