Bloggsíða leggur fólki skyldur á herðar. Ekki síst ef um er að ræða ferðablogg. En flakk um Evrópu undanfarið hefur tafið fyrir skriftum og það er ekki fyrr en núna, í mínum eigin stofusófa með götóttu áklæði, að ég gef mér tíma til að rekja aðeins flandrið undanfarna viku.
 |
Hótel Antík á Dlouhá |
Eftir tveggja vikna dvöl í fagra og þægilega, gamla bænum Český Krumlov í Tékklandi lá leiðin til Prag. Við tókum rútu og gátum því horft á fallegt landslag þar sem ránfuglar sátu á staurum, dádýr nörtuðu gras sem stóð upp úr snjóföl, moldvörpuhrúgur mátti sjá á engjum og hér og þar glitti í bjórverksmiðjur. Við bóndabæi sáust líka svín í girðingum og brúnar hænur á vappi. Þvílík sæla ef íslenskir bændur hleyptu svínunum sínum út! Við ókum líka í gegnum borgirnar Budejovice og Písek sem aðdáendur góða dátans Svejks vita ýmislegt um. Ég hefði alveg getað hugsað mér að stökkva úr rútunni og dvelja nokkra daga á þeim stöðum. Þegar við komum til Prag tókum við jarðlest á næstu lestarstöð við Hótel Antík við götuna Dlouhá, en þar var búið að bóka gistingu nokkrum dögum áður á ofursúperdúndurtilboði. Ég mæli eindregið með að fólk fari til Prag á þessum árstíma ef því verður við komið, nú er gisting í boði á bærilegu verði og túrisminn ekki eins yfirþyrmandi og mér skilst að hann sé yfir sumartímann.
 |
Útsýni um hótelglugga |
Prag hefur heldur betur breyst síðan ég kom þangað árið 1999 þegar við kjarnafjölskyldan fórum í bakpokaferðalag um Evrópu. Nú er fátt sem minnir á tíma kommúnistanna, miðborgin er eiginlega eins og stór og blikandi kapítalistanýlenda. Margt fólk hefur líka á sér annað yfirbragð en það sem ég man eftir síðan fyrir einum og hálfum áratug. Núna var þarna til dæmis mikið um örmjóar, pelsklæddar konur sem minna á veiðihunda með Vuitton-töskur, ég er viss um að þær voru ekki þarna síðast þegar ég var í Prag. Hótel Antík er fínt og vel staðsett og við fengum svo gott herbergi að ég sætti mig alveg við útsýnið.*
Ég kann alveg hrikalega vel við mig í Prag. Þar eru falleg hús, viðkunnanlegt fólk, góður matur og góðar kökur og gott kaffi á góðu verði og vel upp aldir hundar gjarna á veitingastöðum eins og í Þýskalandi. Reyndar er reykjarsvælan á veitingastöðum og börum ansi erfið þegar búið er að venja mann af því að vera í reyk. Ég þurfti að snúa við í dyrunum einhvers staðar vegna þess að mér súrnaði svo í augum, en þá fannst mér ég samt auðvitað óttalegur kettlingur og aumingi.
Ég keypti mér enga Prada-tösku í Prag en hins vegar keypti ég mér húðvæn undirföt í Marks&Spencer. Nokkrum dögum síðar hélt ferðin áfram til Þýskalands en ég má víst ekki vera að því að skrifa meira um þá ferð í bili vegna skyldustarfa. Þessi hnökrótta ferðaupprifjun heldur vonandi áfram þegar ég er búin að grauta eitthvað í verkefnum dagsins. Ég þarf að skrifa pistil um íslenskar bókmenntir fyrir norska öndvegisdagblaðið Klassekampen (það geri ég með reglulegu millibili) og svo bíða auðvitað nokkur önnur stór og smá verkefni sem þarf að sinna. Ef einhver skyldi lesa þetta þá óska ég viðkomandi góðra stunda.
 |
Hundur á bar |
* Ég minnist þess svo sem ekki að ég hafi nokkurn tíma kvartað yfir nokkru á hóteli, en það er nú annar handleggur.
Kommentarer
Skicka en kommentar