Í gær fór ég í ondúleringu og las slatta af glansblöðum. Það er menningarkimi sem ég tek skorpu í á þriggja mánaða fresti á hárgreiðslustofunni. Sumt finnst mér mjög skemmtilegt í svona blöðum, til dæmis að skoða myndir af innlitum á heimili fólks og sjá hvað er mikið tekið í híbýlum sem talin eru til fyrirmyndar. Hnútapúðarnir, sem hafa verið vinsælir í örfá ár, koma enn sterkir inn hjá þeim sem eiga falleg heimili. Ég fæ alltaf aðkenningu af minnimáttarkennd þegar ég sé baðherbergin og svefnherbergin í tímaritunum. Það er er ansi ljótt heima hjá mér miðað við þessi fínu heimili, en stundum fyllist ég eldmóði við lesturinn og heiti því að taka mig á og smartvæða heimili mitt. Svo eru það viðtölin. Mér finnst oft mjög skemmtileg viðtöl í glansblöðum. Ég finn eiginlega alltaf eitt viðtal við þekkta manneskju sem segist hafa verið mjög gáfað barn. Viðkomandi kunni að lesa fjögurra ára og var almennt á undan skólafélögum sínum í þroska. Oftar en ekki dvaldi umrætt gáfubarn líka töluvert h...