Spói ( Numenius phaeopus) Í gær fékk ég póst frá ritstjóra tímarits. Þar var ég beðin um að skrifa pistil um ákveðið efni í tímaritið. Að launum fyrir pistilinn er í boði árs áskrift að tímaritinu. Ég brást vel við erindi ritstjórans, ég hef sjálf verið ritstjóri tímarits og veit að það er ekki hlaupið að því að fá fólk til að skrifa pistla eftir dyntum ritstjóra og ég veit líka að það er erfitt að halda úti tímaritum í örlitlu málsamfélagi. Ég kýs að líta á skrifin sem eins konar samfélagsþjónustu, svona svipað og að Vitabar sinnir ýmsum þörfum samborgaranna (þessi loðna samlíking þyrfti hugsanlega útskýringar við en ég stend ekki í því að útskýra neitt, þetta les hvort sem er enginn). Gallinn við pistlaskrifin er hins vegar sá að ég þarf að skila pistlinum fyrir mánudag. Ég passaði mig á því þegar ég var ritstjóri að biðja fólk um að skila skrifum með löngum fyrirvara, fólk tekur miklu frekar vel í það að gera eitthvað smáræði ef því er sagt að það hafi marga mánuði til að vinna verk...