Í annað skipti á þessu ári er ég stödd í borginni við Eyrarsund. Ég er í miklu hipsteragettói á Norðurbrú. Hér er fólkið fagurt, kaffið með jurtamjólkinni gott og baðherbergin endurnýjuð. En fólk reykir samt enn á börum og svölum og í gær gekk ég í gegnum grasreykingaský, það minnti mig nú örlítið á miðbik Laugavegar. Það er reyndar eitthvað um það að fólk sé skotið hér í grenndinni, ég nenni samt ekki að vera stressuð og í skotheldu vesti, held líka að í bili sé búið að semja um vopnahlé við eiturlyfjarússaða og byssuóða unglinga í tilvistarkreppu. Íbúðina fann ég á airbnb og hún er alveg dásamleg, með svölum sem snúa inn í garð og full af vínylplötum og ljóðabókum. Á ísskápnum er ástarbréf og það er svo fallega orðað að þegar ég las það (auðvitað má lesa bréf sem hanga framan á ísskápum) hefði ég tárast smá væri ég ekki svellkaldur nagli með hjarta úr steini. Skrifarinn fær næstum óþægilega öran púls við að hugsa um íbúðareigandann og viðkomandi elskar hvern einasta sentimetra af...