Undanfarið hef ég lesið ýmislegt þar sem sjúkdómar koma við sögu. Í fyrsta lagi nýja sænska bók um konu sem er að veslast upp heima á stofusófanum sínum. Bókin er önnur skáldsaga höfundar, ég skrifaði einu sinni um fyrstu skáldsöguna hennar á Druslubókabloggið, hér er krækja á þá færslu . Fyrrnefnd ný skáldsaga Önnu Ringberg (hún heitir Till minne av Berit Susanne Fredriksson ) var eiginlega hliðarspor því ég er aðallega búin að vera að lesa þrjár aðrar bækur, tvær eftir hugmyndasöguprófessorinn Karin Johannisson, sem dó í fyrra vetur, og greinasafn þar sem hún á líka grein. Þessar bækur fjalla allar meira og minna um geðsjúkdóma, sjúkdómsgreiningar og menningarsjúkdóma. Það er nefnilega ekki þannig að sjúkdómar og sjúkdómsgreiningar séu einhver fasti. Sjúkdómsgreiningar eru mismunandi eftir þjóðfélögum, þær koma og fara og ýmislegt sem var greint sem sjúkdómur fyrir ekki mjög löngu síðan er hætt að vera til sem díagnósunúmer, en síðan hafa margar díagnósur bæst við undanfarin ár...