Elín Pjet. Bjarnason Sumir rithöfundar og bloggarar fá mörg símtöl, bréf og pósta frá lesendum sínum þar sem brugðist er við skrifunum með ýmsum hætti. Ég fæ lítið af slíkum viðbrögðum nema í formi þumla og einstaka skilaboða á samfélagsmiðlum, sem eru reyndar kærkomnir miðlar sem ég kann að meta. Ég á samt nokkur bréf og pósta frá lesendum, en það er ekki mikið að vöxtum. Kannski eru hinir skrifararnir bara að ljúga eða ýkja viðbrögðin við skrifum sínum til að vekja á sér athygli, það gæti svo sem alveg verið. En hvað sem þessu líður þá fékk ég um daginn, eftir að ég hafði skrifað um höfund lagsins sem sungið er við íslenska þjóðsönginn og eiginkonu hans og húsið sem Sveinbjörn dó í á Friðriksbergi, afar skemmtilega pósta frá einum lesanda þessarar síðu. Lesandinn sagði mér frá mjög áhugaverðri og jafnframt býsna óþekktri íslenskri listakonu, Elínu Pjet. Bjarnason (1924-2009), sem bjó mestan hluta ævinnar og dó í Danmörku, seinni árin bjó hún einmitt á Friðriksbergi...