Bob Dylan er nýorðinn áttræður. Eins og var fyrirsjáanlegt spruttu Dylanmennirnir fram eins og grápöddur undan steinum og fögnuðu í einkamiðlum og á opinberum vettvangi. Fréttatími RÚV í gær fagnaði líka afmælinu með veglegri umfjöllun og einn menningarblaðamaður sagði í yfirskrift blaðagreinar að afmælinu fögnuðu allir góðir menn. Í morgun minntist vinkona mín á tíu ára gamla sænska grein, sem birtist í tilefni sjötugsafmælis nóbelsverðlaunahafans í nöldurkenndu rími (textinn við Positively 4th street hlýtur að vera eitt magnaðasta nöldur bókmenntasögunnar). Greinin Män som missbrukar Dylan , er eftir Hönnu Fahl og þar fjallar hún um Dylanmennina, en Hanna kveðst hafa hitt margan Dylanmanninn í lífi sínu. Nánasti vinur Hönnu, sagnfræðingurinn og skjalavörðurinn Fredrik Egefur, er Dylanmaður (hann er samt kannski fyrrverandi Dylanmaður núna), en Dylanmenn eru þeir sem vímast gjarna allir upp þegar Dylan berst í tal, þeir geta verið á öllum aldri og með ólíkar pólitískar skoðanir ...